Spánverjar afhentu Bandaríkjamönnum vélmenni í dag sem ferðaðist í fyrsta sinn neðansjávar yfir Atlantshafið. Tilgangur ferðarinnar var að mæla hitastig sjávar í tengslum við loftslagsbreytingar í heiminum. Ferðinni lauk í síðustu viku.
Vélmenninu svipar mjög til eldflaugar með vængi. Það ferðaðist 7.400 km langa leið á milli New Jersey á austurströnd Bandaríkjanna til Galisíu á norðvesturhluta Spánar. Ferðin tók 225 daga og komst vélmennið leiðar sinnar með rafhlöðu og sjávarstraumum.
Vélmennið, sem kallast Skarlatsriddarinn, kom á land sl. föstudag í Baiona á Spáni, sem er sami bær og Kristófer Kólumbus kom til hafnar árið 1493 þegar hann sneri heim frá Ameríku í fyrsta sinn.
Jose Blanco, samgönguráðherra Spánar, afhenti Jerry Miller, vísindaráðgjafi hjá Hvíta húsinu, vélmennið við hátíðlega athöfn í Baiona.
Skarlatsriddarinn getur kafað niður á 200 metra dýpi og þolir óveður vel. Hann safnaði upplýsingum um hafstrauma, saltmagn og hitastig sjávar á ferð sinni.
Hann verður nú til sýnis á Smithsonian-safninu í Washington, en eftirmynd af tækinu verður til sýnis í Baiona.