Heimskautaísinn bráðnar mun hraðar en til þessa hefur verið talið og yfirborð sjávar gæti hækkað um allt að 2 metra á þessari öld ef svo heldur sem fram horfir. Þetta kemur fram í nýrri skýrslu, sem Al Gore, fyrrverandi varaforseti Bandaríkjanna, og Jonas Gahr Støre, utanríkisráðherra Noregs, hafa látið vinna.
Þeir Gore og Støre fengu hugmyndina að því að gera þessa skýrslu þegar þeir hittust á fundi Norðurskautsráðsins í Tromsö í Noregi fyrr á þessu ári. Þeir munu kynna niðurstöðurnar á loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna, sem nú stendur yfir í Kaupmannahöfn.
Fram kemur í norska blaðinu Aftenposten, sem hefur lesið skýrsluna, að helstu niðurstöðurnar séu þessar:
Jonas Gahr Støre segir við Aftenposten, að þessar niðurstöður séu alvarlegar en ljóst sé, að bráðnun íss á landi og við sjóinn sé svo mikil að hættan á að yfirborð sjávar hækki umtalsvert hafi aukist mjög á síðustu árum.
Hann segir að spá loftslagsnefndar Sameinuðu þjóðanna um að yfirborð hafsins gæti hækkað um 1 metra á öldinni hafi þótt öfgakennd en sé það ekki lengur. „Það eru miklar líkur á að hafið hækki um 1,2 metra og jafnvel um 2 metra á þessari öld," segir utanríkisráðherrann.
Að sögn Aftenposten hefur norska heimskautastofnunin ásamt vísindamönnum um allan heim safnað saman upplýsingum og lagt á þær mat fyrir skýrsluna. Gahr Støre segir, að í raun hafi niðurstöðurnar ekki komið á óvart. Hann segir að Gro Harlem Brundtland, fyrrverandi forsætisráðherra Noregs, muni afhenda framkvæmdastjóra Sameinuðu þjóðanna skýrsluna en sjálfur ætli hann að senda hana til utanríkisráðherra allra þeirra 192 landa, sem taka þátt í ráðstefnunni í Kaupmannahöfn.