Yfirborð sjávar gæti hækkað um 2 metra

Jonas Gahr Støre og Al Gore á fundi Heimskautaráðsins í …
Jonas Gahr Støre og Al Gore á fundi Heimskautaráðsins í Trömsö fyrr á árinu.

Heim­skautaís­inn bráðnar mun hraðar en til þessa hef­ur verið talið og yf­ir­borð sjáv­ar gæti hækkað um allt að 2 metra á þess­ari öld ef svo held­ur sem fram horf­ir. Þetta kem­ur fram í nýrri skýrslu, sem Al Gore, fyrr­ver­andi vara­for­seti Banda­ríkj­anna, og Jon­as Gahr Støre, ut­an­rík­is­ráðherra Nor­egs, hafa látið vinna.

Þeir Gore og Støre fengu hug­mynd­ina að því að gera þessa skýrslu þegar þeir hitt­ust á fundi Norður­skauts­ráðsins í Trom­sö í Nor­egi fyrr á þessu ári. Þeir munu kynna niður­stöðurn­ar á lofts­lags­ráðstefnu Sam­einuðu þjóðanna, sem nú stend­ur yfir í Kaup­manna­höfn.

Fram kem­ur í norska blaðinu Af­ten­posten, sem hef­ur lesið skýrsl­una, að helstu niður­stöðurn­ar séu þess­ar: 

  • Ný ísmynd­un nær ekki að vinna upp bráðnun á báðum pólsvæðunum, á Græn­landi, í Himalaía­fjöll­um og sama þróun er á jökl­um um all­an heim. 
  • Áhrif bráðnun­ar­inn­ar eru bæði svæðis­bund­in en hafa einnig áhrif um all­an heim og veld­ur víxl­verk­un sem eyk­ur á hlýn­un lofts­lags­ins. Þannig hef­ur minni haf­ís á norður­skaut­inu þau áhrif, að varma­upp­taka frá sólu eykst. Það leiðir til þess að túndr­an þynn­ist sem aft­ur hef­ur þau áhrif að gríðarlegt magn af gróður­húsaloft­teg­und­un­um met­ani og kol­díoxíði losn­ar út í and­rúms­loftið.
  • Stöðugt meira magn af sótögn­um frá brenn­andi líf­massa, svo sem trjám og grasi í Aust­ur-Asíu, berst með vind­in­um og fell­ur á ís­inn. Þetta eyk­ur á bráðnun­ina vegna þess að sótið dreg­ur í sig varma frá sól­inni. 

Jon­as Gahr Støre seg­ir við Af­ten­posten, að þess­ar niður­stöður séu al­var­leg­ar en ljóst sé, að bráðnun íss á landi og við sjó­inn sé svo mik­il að hætt­an á að yf­ir­borð sjáv­ar hækki um­tals­vert hafi auk­ist mjög á síðustu árum.

Hann seg­ir að spá lofts­lags­nefnd­ar Sam­einuðu þjóðanna um að yf­ir­borð hafs­ins gæti hækkað um 1 metra á öld­inni hafi þótt öfga­kennd en sé það ekki leng­ur. „Það eru mikl­ar lík­ur á að hafið hækki um 1,2 metra og jafn­vel um 2 metra á þess­ari öld," seg­ir ut­an­rík­is­ráðherr­ann.

Að sögn Af­ten­posten hef­ur norska heim­skauta­stofn­un­in ásamt vís­inda­mönn­um um all­an heim safnað sam­an upp­lýs­ing­um og lagt á þær mat fyr­ir skýrsl­una. Gahr Støre seg­ir, að í raun hafi niður­stöðurn­ar ekki komið á óvart. Hann seg­ir að Gro Har­lem Brund­t­land, fyrr­ver­andi for­sæt­is­ráðherra Nor­egs, muni af­henda fram­kvæmda­stjóra Sam­einuðu þjóðanna skýrsl­una en sjálf­ur ætli hann að senda hana til ut­an­rík­is­ráðherra allra þeirra 192 landa, sem taka þátt í ráðstefn­unni í Kaup­manna­höfn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert