Einstaklingar sem eru með ungleg andlit eru líklegri til að eiga langa ævi heldur en þeir sem líta út fyrir að vera eldri en þeir eru. Danskir vísindamenn halda þessu fram eftir að hafa rannsakað 387 tvíburapör. Þeir segja að útlit fólks eitt og sér geti sagt til um ævilengd þeirra.
Vísindamennirnir báðu hjúkrunarfræðinga, kennaranema og aðra vísindamenn til að skoða ljósmyndir af tvíburunum og giska svo á aldur þeirra. Þetta kemur fram á vef breska ríkisútvarpsins.
Þar segir að fram komi í British Medical Journal að þeir sem voru sagðir vera yngri lifðu alla jafna lengur heldur en bróðir sinn eða systir.
Vísindamennirnir hafa einnig fundið mögulega líffræðilegar skýringar á niðurstöðum sínum. Þeir segja að lykilþættir DNA-erfðaefnisins, sem kallast litningaendar (e.telomere) og segja til um það hversu vel frumur geta skipt sér, tengist einnig því hversu unglegir einstaklingar líta út fyrir að vera.
Stuttir litningaendar eru sagðir benda til þess að viðkomandi eldist hratt og þá hefur þetta verið tengt ýmsum sjúkdómum.Þeir sem litu unglega út í rannsókninni voru með lengri litningaenda.
Allir tvíburarnir voru á áttræðis-, níræðis, og tíðræðisaldri þegar þeir voru myndaðir.
Rannsóknin stóð yfir í sjö ár og fór prófessorinn Kaare Christensen, hjá Syddansk Universitet, fyrir henni. Hann segir að því meiri sem munurinn er á milli tvíbura, því líklegra sé að sá sem líti út fyrir að vera eldri deyi fyrr.