Kolkrabbar ekki eins vitlausir og þeir virðast

Kolkrabbar kunna að vera klárari en áður var talið. Ástralskir vísindamenn hafa uppgötvað að sjávardýrin áttarma geti borið með sér kókoshnetuskeljar og notað sem verkfæri. Þetta er í fyrsta skiptið sem vitað er til þess að hryggleysingjar noti verkfæri.

Líffræðingurinn Julian Finn segist hafa verið „agndofa" þegar hann sá fyrst kolkrabba af tegundinni Amphioctopus marginatus taka upp kókoshnetuskel og skjótast með hana burt eftir sjávarbotninum. „Allajafna tengjum við ekki flókið hegðunarmunstur við hryggleysingja, sem mætti kalla dýr af lægri stigum," hefur AFP eftir Finn.

„Svona hegðun eins og að nýta sér verkfæri höfum við hingað til að aðeins eignað þróuðum hryggdýrum, manninum, öpum, nokkrum fuglategundum og svo framvegis. Þessi rannsókn sýnir að flókin hegðun takmarkast ekki við okkur, það eru margskonar dýr sem hegðar sér þannig."

Notkun verkfæra er talin eitt helsta merki um um greind og þrátt fyrir að upphaflega hafi verið talið að aðeins maðurinn byggi yfir þeirri hæfni hefur hún síðar verið greind í fleiri prímötum, spendýrum og fuglum, en ekki áður í hryggleysingjum eins og segir í grein Finn sem birtist í bandaríska tímaritinu Current Biology.  

Finn segir að þegar hann hafi í fyrsta skipti séð kolkrabba taka með sér skel hafi hann ekki vitað hvort það var aðeins einstakt tilfelli um óvenjulega hegðun. Næstu 10 árin fylgdist hann því ítarlega með rúmlega 20 kolkröbbum og sá þar af 4 þeirra flytja með sér skeljar.

Á meðan kolkrabbarnir bera skeljarnar með sér eru þeir klaufalegri í hreyfingum og viðkvæmari fyrir árásum annarra dýra, en þegar þeir komast á áfangastað uppskera þeir fyrir erfiðið og nýta m.a. skelina sem skjól.

„Þeir gera þetta meðvitað til að geta hagnast á því síðar og það er mikill greinarmunur á því og dýri sem tekur tilviljanakennt upp skel og setur hana strax á höfuðið," segir Finn. Hann telur líklegt að sambærileg hegðun geti fundist hjá fleiri dýrum.

Kolkrabbi
Kolkrabbi AP
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert