Offeitur skunkur í megrun

Mr Bumbles var alltof feitur þegar hann kom i dýragarðinn …
Mr Bumbles var alltof feitur þegar hann kom i dýragarðinn í Somerset. Mynd/Telegraph

Skunkur í dýragarðinum Tropiquaria í Somerset í Englandi hefur misst um það bil tvö kíló eftir að hafa verið settur á sérstakt mataræði. Skunkurinn hafði fitnað allverulega eftir óhóflegt beikonsamlokuát.

Eftir að skunkurinn Mr. Bumble var settur á strangt mataræði missti hann ríflega fjórðung þyngdar sinnar. Þegar Mr Bumble var einna dýpst sokkinn í beikonsamlokurnar vó hann tæp sjö kíló. Fyrri eigendur skunksins gátu ekki séð um hann lengur og afhentu hann því dýragarðinum, og gengust á sama tíma við því að hafa ekki sýnt nægilegt næringafræðilegt aðhald við fóðrum Mr. Bumble.

Nú fer skunkurinn í tveggja tíma göngutúra á hverjum degi og fær einungis ávexti og grænmeti að borða. Talsmenn dýragarðsins telja að Mr. Bumble þurfi þó að missa tvö kíló til viðbótar til að fara í eðlilega þyngd á ný. Talið er næsta öruggt að skunkurinn sakni beikonsamlokanna sem hann fékk hjá fyrri eigendum.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert