Áfengislíki án timburmanna í þróun

Margir kynnu eflaust að meta uppfinningu dr. Nutt fyrir gamlárskvöld.
Margir kynnu eflaust að meta uppfinningu dr. Nutt fyrir gamlárskvöld.

Breskir vísindamenn eru nú með í þróun eftirlíkingu áfengis, lyf sem kallar fram hin þægilegu áhrif áfengisvímunnar án þess að neytandinn verði fullur eða timbraður í kjölfarið. Stefnt er að því að hægt verði að „slökkva á" vímunni samstundis með því að taka töflu, sem myndi gera fólki kleift að keyra heim eftir drykkjuna eða fara til vinnu. Frá þessu er sagt í breska blaðinu Guardian. 

Drykkurinn er unnin úr efnum sem svipar til valiums og hafa álíka virkni á taugaboð í heilanum með því að framkalla vellíðunartilfinningu og slökun. Ólíkt alkóhóli hefur efnið hinsvegar ekki áhrif á aðra hluta heilans sem stjórna skapsveiflum og leiða til fíknar. Maðurinn að baki þessari uppfinningu er lyfjasérfræðingurinn David Nutt við Imperial College í London, en hann var nýlega rekinn sem ráðgjafi ríkisstjórnarinnar vegna ummæla sinna um kannabis og alsælu.

Hann dreymir um heim þar sem fólk getur drukkið án þess að verða drukkið. Sama hversu mörg glös það drekki fari það aldrei lengra í vímunni en á stig mildrar vellíðunar og geti svo keyrt heim að því loknu með fullri meðvitund. Hugmyndin er sú að lyfið verði bæði bragðlaust og lyktarlaus, líkt og alkóhól, og hafi þannig ekki áhrif á þann drykk sem það er blandað við.

Þegar fram líði stundir taki það því yfir alkóhól og verði blandað við bæði bjór og vín. Nutt telur að lyfið muni hafa afdrifarík áhrif á samfélagið og heilsufar bresku þjóðarinnar. Hinsvegar gæti orðið erfitt að fá lyfið samþykkt þar sem það er kostnaðarsamt og ekki ljóst hver er tilbúinn að leggja fé til verkefnisins. Áfengisframleiðendur hafa ekki sýnt Nutt mikinn áhuga enn sem komið er.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka