Yfirmaður geimvísindastofnunar Rússlands, Roscosmos, segir að stofnunin vilji vinna að því að eyða loftsteini, sem mun fara nokkrum sinnum framhjá jörðinni í lítilli fjarlægð eftir árið 2029.
Anatoly Perminov sagði rússneskri útvarpsstöð frá því í morgun, að vísindaráð stofnunarinnar muni halda lokaðan fund til þess að ræða þetta mál. Ef einhver áætlun komi út úr því verði hún líklega alþjóðlegt samstarf.
NASA, geimvísindastofnun Bandaríkjanna, hefur áður gefið það út, að líkurnar á því að loftsteininni, sem kallaður er Apophis, lendi á jörðinni árið 2036 séu einn á móti 250.000. Þær líkur eru mun minni en áður hafði verið áætlað, en áður var sagt að líkurnar væru einn á móti 45.000. Árið 2029 mun Apophis fara framhjá jörðinni í 30.000 kílómetra fjarlægð.
Perminov vildi lítið segja um það hvaða aðferðum væri hægt að segja, en haft var eftir honum hjá Interfax fréttastofunni að kjarnorkusprengjur væru ekki hluti af lausninni. Aðrar lausnir sem fólk hefur velt vöngum yfir eru þær að láta geimflaugar ýta steininum af braut sinni með afli, eða að nota sólsegl, sem notfæra sér sólvinda, efniseindir sem stafa frá sólinni.
„Líf fólks er í húfi,” sagði Perminov við útvarpsstöðina Golos Rossii (Rödd Rússlands). „Við ættum að setja nokkur hundruð milljón dollar í að byggja kerfi sem myndi gera okkur kleift að koma í veg fyrir árekstur, frekar en að sitja og bíða eftir því að hann gerist og verði hundruðum þúsunda manna að bana.”