Nýjar rannsóknir benda til þess, að notkun farsíma kunni að vera heilsusamleg því rafsegulbylgjur, sem síminn sendir frá sér, gæti unnið gegn áhrifum Alzheimersjúkdómsins og hugsanlega unnið bug á honum.
Vísindamenn hjá háskólanum í Suður-Flórída beindu rafsegulbylgjum, svipuðum þeim og bandarískir farsímar senda frá sér, að 96 músum sem flestar höfðu verið erfðabreyttar þannig að þær þróuðu með sér Alzheimersjúkdóminn með aldrinum.
Beint var 918 megaHerza tíðni tvisvar á dag í eina klukkustund í senn á 7-9 mánaða tímabili. Það svarar til nokkurra áratuga á mannsævi.
Í eldri músum hafði þetta þau áhrif, að uppsöfnun svonefnds beta-amyloids, sem safnast saman í heila Alzheimersjúklinga, hætti. Þá dró einnig úr minnisglöpum músanna.
Yngri mýs, sem ekki sýndu enn merki um minnisglöp, virtust ekki þróa með sér Alzheimersjúkdóminn eftir að rafsegulbylgjum hafði verið beint að þeim í nokkra mánuði. Þá virtist minni venjulegra músa, sem ekki höfðu verið erfðabreyttar, batna.
Þetta mun vera fyrsta rannsóknin á áhrifum langtímanotkunar farsíma og niðurstöðurnar komu vísindamönnunum á óvart. Gary Arendash, prófessor við Suður-Flórída háskóla, sagðist upphaflega hafa haft þá tilgátu að rafsegulbylgjur frá farsímum myndu hraða áhrifum Alzheimer í músum. Niðurstaðan hefði hins vegar orðið þveröfug.