Óvenjulegt ferðalag kríunnar milli heimsskautasvæða kortlagt

Krían leggur um 71.000 km að baki á ferðum fram …
Krían leggur um 71.000 km að baki á ferðum fram og til baka milli varp- og vetrarstöðva. Þorvaldur Örn Kristmundsson

Sveit grænlenskra, danskra, bandarískra, breskra og íslenskra vísindamanna hefur tekist að kortleggja með nákvæmni hið sérstaka flug kríunnar er hún ferðast milli heimskauta.  Meðal greinarhöfunda er Ævar Petersen, fuglafræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands.

Krían leggur að baki 70.000 kílómetra á leið sinni fram og til baka en örlitlir 1,4 gramma sendar sem komið var fyrir á baki fuglanna gerðu kleift að reikna út ferðir fuglanna.

Í ljós kom að krían flýgur ekki beinustu leið milli pólsvæða. Á leiðinni suður fara þær ýmist meðfram ströndum Afríku eða Brasilíu. Á norðurleiðinni er ferill þeirra hins vegar s-laga upp eftir Atlantshafi en þá nýta þær sér ríkjandi vindáttir.

Skýrt er frá niðurstöðum kortlagningar ferða kríunnar í bandaríska tímaritinu PNAS, en langa frásögn er einnig að finna á vef BBC. Þá er fjallað um rannsóknina á heimasíðu Náttúrufræðistofnunar Íslands.

Vitað var að krían heldur til á heimskautasvæðum í norðri að sumri til og í suðri þegar vetur ríkir norðan miðbaugs. Hins vegar hefur nákvæmni ferðalagsins frá varpstöðum til vetrarstöðva og til baka aldrei verið þekkt með þeim hætti sem nú er vitað.

Það kom vísindamönnunum á óvart, að krían tæki ekki beina stefnu og flygi rakleitt til suðurskautssvæðisins. Reyndist hún stoppa nokkuð lengi á miðju Norður-Atlantshafi, um 1.000 km norður af Azoreyjum, til að afla sér fæðu til framhaldsflugsins.

Þaðan héldu fuglarnir meðfram Evrópuströndum og ströndum Vestur-Afríku áður en þeir völdu svo milli þess að fylgja áfram Afríkuströndum eða taka sveig yfir Atlantshafið við Grænhöfðaeyjar og klára leiðina meðfram Brasilíuströndum.

Á ferð sinni fram og til baka milli varp- og vetrarstöðva reyndust kríurnar fljúga um 70.900 kílómetra. Suðurleiðin nam 34.600 km og norðurleiðin 25.700 km. Miðaði kríunni að meðaltali 330 km á dag suður á bóginn en 520 km norður á bóginn. Í ljós kom að hún flaug svo um 10.900 km meðan hún dvaldi á vetrarstöðvunum.

Náttúrufræðistofnun segir, að kríur geti lifað yfir 30 ár og ár hvert ferðast þær póla á milli. Séu ferðirnar lagðar saman fljúga kríur sem ná slíkum aldri að fara allt að þrjár ferðir milli tunglsins og til baka. 


Einfölduð mynd af pólflugi kríunnar. Myndin er tekin af vef …
Einfölduð mynd af pólflugi kríunnar. Myndin er tekin af vef Náttúrufræðistofnunar.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert