Ládeyða í virkni sólar

Sólvirkni á mynd frá bandarísku geimferðastofnuninni, NASA.
Sólvirkni á mynd frá bandarísku geimferðastofnuninni, NASA.

Sólvirkni hefur verið með minnsta móti undanfarin ár. Ládeyðan hefur staðið óvenju lengi og lítið sést af sólblettum. Kenningar eru um að lítil virkni sólar valdi kuldaskeiðum á jörðu. Dr. Þorsteinn Sæmundsson stjörnufræðingur segir slíkar kenningar vera ósannaðar tilgátur og fræðilegan rökstuðning skorti.

Þorsteinn sagði að langt væri síðan að menn bentu fyrst á að svo virtist sem lítilli sólvirkni fylgdu kuldaskeið á jörðu. Dæmi um það eru skeið kennd við Maunder (1645-1715) og Dalton (1790-1830). Þá var sólvirkni óvenju lítil, sérstaklega á Maunder-skeiðinu, en þá var einmitt kuldatímabil í Evrópu sem kallað hefur verið „Litla ísöldin“.

Sólvirkni fylgja sólblettir á yfirborði sólar og sjást þeir greinilega frá jörðu. Einnig fylgja sólvirkninni rafagnastraumar sem berast til jarðar, trufla segulsvið hennar og valda norðurljósum. „Það sem vekur eftirtekt nú er að sólin er í óvenjulegu lágmarki. Sólvirkni er sennilega sú minnsta í 100 ár,“ sagði Þorsteinn. Hann starfar á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands en þar er fylgst með breytingum á segulsviði jarðar. Segulmælingar hafa verið stundaðar í segulmælingastöð Háskólans í meira en hálfa öld.

„Við höfum aldrei fyrr séð jafn rólegt segulsvið og nú á þessum rúmlega fimmtíu árum,“ sagði Þorsteinn um mælingarnar. Það sama gildir um norðurljósin, þau hafa verið í lágmarki. Reiknað hafði verið með því að sólvirknin myndi aftur aukast á árunum 2006-2007. Þorsteinn sagði að sú spá hefði ekki ræst heldur hefði virknin haldið áfram að minnka og verið í lágmarki fram undir árslok 2009.

Undanfarið hafa verið kuldaskeið í Evrópu, Bandaríkjunum, Kína og víðar. Þorsteinn sagði að óhjákvæmilega flygi um hugi manna tilgátan um að tengsl væru á milli kuldanna og lítillar virkni sólar.

„Ég mundi ekki vilja fullyrða neitt um þetta, því menn sjá ekki skýr orsakatengsl, “ sagði Þorsteinn. Hann sagði að ýmsum tilgátum hefði verið slegið fram. T.d. þeirri að um áhrif geimgeisla væri að ræða en menn hafa getið sér þess til að geimgeislar geti haft áhrif á veðurfar. Rafagnastraumarnir bægja geimgeislum frá jörðu og eru áhrif geimgeisla því mest þegar sólvirkni er minnst og rafagnastraumar í lágmarki.

Sólblettaskeið eru að meðaltali 11 ár til langs tíma litið. Á því tímabili fjölgar og fækkar sólblettum reglulega. Á síðustu öld voru sólblettaskeiðin tiltölulega stutt og nær tíu árum en ellefu að lengd. Það sólblettaskeið sem nú virðist ætla að fara að ljúka er orðið meira en 13 ára langt, sem er mjög óvenjulegt. Sumir fræðimenn telja sig hafa fundið tengsl milli lengdar sólblettaskeiða og veðurfars á jörðu. Þegar sólblettaskeið séu löng verði kaldara á jörðinni en þegar þau eru styttri. Þessi kenning er umdeild og Þorsteinn segist ekki sérlega trúaður á hana. Oft sé erfitt að greina milli tilviljana og orsakasambands. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert