Þýsk stjórnvöld hafa varað tölvunotendur þar í landi við að nota netvafrann Internet Explorer frá Microsoft. Tilefnið eru árásir tölvuþrjóta á Google leitarvélina.
Viðvörunin kemur frá þýska upplýsingatækniráðuneytinu, í kjölfar þess að Microsoft viðurkenndi að Explorer hafi verið veiki hlekkurinn í þessum árásum á Google. Talsmenn Microsoft hafa hins vegar gagnrýnt þessa viðvörun Þjóðverja, samkvæmt frétt BBC, og segja óþarft fyrir notendur Explorer að óttast. Ráðstafanir hafi verið gerðar til að auka öryggi vefforritsins.
Talsmaður Microsoft í Þýskalandi bendir á árásirnir á Google hafi verið gerðar af fólki með ákveðinn og markvissan tilgang, þeim hafi ekki verið beitt gagnvart venjulegum tölvunotendum.