Tölvuþrjótur nokkur nýlega komst yfir lykilorð 32 milljóna notenda á netsvæði fyrir spil, tólist og aðra afþreyingu. Þrjóturinn birti lykilorðin síðan á netinu og nú hefur tölvuöryggisfyrirtækið The Imperva Application Defense Center rannsakað þessi lykilorð. Dómurinn er sá, að netverjar séu afar kærulausir þegar þeir velja lykilorð sem eiga að verja persónuupplýsingar þeirra.
Algengasta lykilorðið var 123456. Í öðru sæti var 12345 og í þriðja sæti var 123456789. Í næstu sætum komu password og iloveyou
Fyrirtækið segir, að fyrstu lykilorðin, sem tölvuþrjótar reyni, séu einmitt þessi fimm orð. 30% netverja velja lykilorð, sem eru sex stafir eða minna.
Sérfræðingar mæla hins vegar með því, að lykilorð séu að minnsta kosti 8 stafir og best sé að þar sé blandað saman hástöfum, lágstöfum, tölum og greinarmerkjum á borð við %, ¤, ( og #. Þá á alls ekki að nota netfang, nafn sitt eða hluta af þessu tvennu.