Heimsins fyrsta kvikmynd sem alfarið er tekin upp af simpönsum verður brátt frumsýnd á BBC sem liður í heimildamynd um náttúrufræði. Simpansarnir sköpuðu kvikmyndina með sérhannaðri, simpansaheldri kvikmyndatökuvél sem þeir fengu frá prímatafræðingum.
Hugmyndin er sú að rannsaka hvernig simpansar skynja heiminn en að baki henni stendur vísindamaðurinn Betsy Herrelko. Hún tók sér 18 mánuði í að kynna tækni kvikmyndatökunnar fyrir hópi 11 simpansa í dýragarðinum í Edinborg. Þrátt fyrir að simpansarnir hafi aldrei tekið þátt í vísindarannsókn áður sýndu þeir fljótt mikinn áhuga á kvikmyndagerð, að sögn BBC.
Simpönsunum var fyrst kennt að nota snertiskjá til að geta valið á milli mismunandi myndskeiða. Þeim var svo afhent myndavél í simpansaheldum kassa, en ofan á honum var skjár sem sýndi það sem myndavélinni var beint að. Á snertiskjánum gátu simpansarnir valið á milli nokkurra myndskeiða sem sýndu m.a. svæðið í kringum búrið þeirra og starfsfólkið útbúa matinn þeirra. Þeir virtust hinsvegar ekki hafa meiri áhuga á ákveðnum myndskeiðum umfram önnur.
Smám saman byrjuðu simpansarnir svo að leika sér með myndavélina og bera hana með sér umhverfis búrið sitt og fylgdust þeir grannt með því hvernig nýjar myndir birtust um leið á skjánum og fannst þeim það mun áhugaverðara en myndskeiðin sem voru þar fyrir.
Ólíklegt er talið að simpansarnir hafi vísvitandi reynt að festa ákveðna hluti á filmu eða að þeir hafi yfirhöfuð haft skilning á því að þeir væru að búa til kvikmynd. Rannsóknin þykir engu að síður athyglisverð fyrir að gefa til kynna hvernig simpansar sjá heiminn, auk þess sem hún fer án efa í sögubækurnar sem fyrsta apagerða kvikmyndin.
Sjá má brot úr kvikmyndinni á vef BBC, en myndin verður frumsýnd á BBC Two á miðvikudag.