Líkur á að líf finnist á öðrum hnöttum hafa aldrei verið meiri en nú, að sögn Rees lávarðar, forseta breska konunglega stjörnufræðingafélagsins. Breska ríkisútvarpið BBC hefur eftir lávarðinum, að slík uppgötvun gæti haft gríðarlegar breytingar í för með sér fyrir mannkynið.
BBC segir, að alþjóðleg ráðstefna vísindamanna sé að hefjast í Lundúnum um möguleika á að finna líf á öðrum hnöttum. Vísindamenn hafa í hálfa öld reynt að nema útvarpssendingar frá öðrum hnöttum, árangurslaust til þessa. En Rees lávarður segir að líkur á að finna aðrar vitsmunaverur séu sífellt að aukast.
„Tækninni hefur fleygt svo mikið fram, að í fyrsta skipti getum við í raun og veru vonast til að finna plánetur á stærð við jörðina, sem eru á braut um aðrar stjörnur. Við getum komist að raun um hvort á þeim séu meginlönd og höf og hvernig andrúmsloftið er.
Þótt það gæti orðið erfitt að komast að því hvort þar sé líf þá væri það gríðarmikið skref að fá einhverja mynd af annarri plánetu, líkri jörðinni," hefur BBC eftir lávarðinum.
Hann segir, að nýjustu gerðir geimsjónauka geti fundið plánetur líkar jörðinni sem eru á braut um fjarlægar stjörnur. „Ef við finnum líf, jafnvel í hinni frumstæðustu mynd, annarstaðar yrði það ein merkasta uppgötvun 21. aldarinnar. Ég tel, að það gæti verið líf og vitsmunalíf úti í geimnum í formum sem við höfum ekki enn gert okkur í hugarlund. Og það vitsmunalíf gæti verið því mannlega mun fremra, svipað og munurinn er á manni og simpansa."