Og það varð ljós

Rafmagn var í fyrsta skipti á Íslandi framleitt úr gróðurhúsagasi …
Rafmagn var í fyrsta skipti á Íslandi framleitt úr gróðurhúsagasi síðastliðinn föstudag

Rafmagn var í fyrsta skipti á Íslandi framleitt úr gróðurhúsagasi síðastliðinn föstudag á Nýsköpunarmiðstöð Íslands og var rafmagnið notað til að knýja ljósaperur og fartölvu. Aðferðin boðar nýja orkubyltingu í endurnýtingu koltvísýrings, að því er segir í tilkynningu.

Í vetur hafa tveir nemendur frá RES skólanum á Akureyri unnið að meistaraverkefni á Nýsköpunarmiðstöð undir leiðsögn prófessors Þorsteins I. Sigfússonar eðlisfræðings og forstjóra Nýsköpunarmiðstöðvar. Verkefnið er unnið í náinni samvinnu við sprotafyrirtækið Carbon Recycling International (CRI) sem notast við vetni og koltvísýring við framleiðslu sína á metanóli á vökvaformi. Í verkefninu var reynt að knýja efnarafala til þess að framleiða rafmagn úr metanólinu. Efnarafalinn notast við platínuhimnur og er af svokallaðri DMFC gerð.

 „Þetta eru tímamót í íslenskri orkusögu. Sá möguleiki að geta umbreytt mengandi losunargasi í orku er stórkostlegur. Metanólið er framleitt hér heima með því að nota vetni úr okkar endurnýjanlegu raforku og tengja það síðan við C02, sem má fá úr jarðhitaborholum eða losun stóriðjunnar. Úr verður grænt metanól sem hægt er að nota á bíla og önnur farartæki og gæti sparað samgöngukerfi eða fiskveiðar mikla orku“, sagði Þorsteinn Ingi Sigfússon forstjóri Nýsköpunarmiðstöðvar, í fréttatilkynningu.

Aflið í rafalanum er um 50 Wött en um þriðjungi af brunaorku metanólsins er umbreytt í raforku.  Í verkefninu var borið saman aflið í íslenska metanólinu við sambærilegt metanól unnið úr kolum eða jarðgasi og reyndust nýtni og orkuinnihald mjög sambærilegt.

Verkefnið hefur einnig falið í sér að bera saman eldri leiðir í metanólframleiðslu við hina nýju umhverfisvænu leið með notkun gróðurhúsagass. Niðurstöðurnar benda til þess að innlend framleiðsla á metanóli sé góður kostur sem getur komið í stað innflutts metanóls og annars eldsneytis og sparað þar með miklar gjaldeyristekjur.

Meistaranemarnir Lapinski og Kluska sem unnu að verkefninu eru styrkþegar frá Póllandi. Verkefnið var lokaáfangi þeirra við RES orkuskólann á Akureyri og var unnið í samvinnu við Háskóla Íslands, Nýsköpunarmiðstöð og fyrirtækið CRI.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka