Apple kynnir iPad

Tæknifyrirtækið Apple svipti hulunni af nýrri handhægri lófatölvu (e. tablet computer) með 10 tommu snertiskjá sem kallast iPad, nú í kvöld. Steve Jobs, forstjóri Apple, segir tækið byltingarkennt. Tækið sé mitt á milli þess að vera fartölva og snjallsími.

„Við viljum byrja árið 2010 með því að kynna töfrandi og byltingarkennda vöru,“ sagði Jobs. „Í dag notum við öll fartölvur og snjallsíma,“ sagði hann jafnframt.

Hann sagði, þegar hann kynnti iPad, að menn hefðu spurt sig að undanförnu hvort rými væri fyrir tækið, sem væri mitt á milli þess að vera snjallsími og lófatölva.

Kynning Jobs hófst kl. 18 að íslenskum tíma. Þangað voru boðaðir blaðamenn, sérfræðingar og valinkunnir einstaklingar í tæknigeiranum.

Tækið líkist stórum iPhone síma, en í því er hægt að horfa á kvikmyndir, skoða ljósmyndir og vafra á netinu. Þá fylgir iTunes tónlistarforritið með. Jobs segir að upplifunin við að vafra um netið í iPad sé engu lík.

Beðið hefur verið eftir þessu með mikilli eftirvæntingu, en það vekur ávallt mikla athygli þegar Apple kynnir nýjar vörur.

Þetta er ein stærsta kynning fyrirtækisins frá því Apple svipti hulunni af iPhone fyrir um þremur árum.

Steve Jobs, forstjóri Apple, með iPad.
Steve Jobs, forstjóri Apple, með iPad. Reuters
Kynning Apple fer fram í San Francisco.
Kynning Apple fer fram í San Francisco. Reuters
Frá kynningu Jobs í kvöld.
Frá kynningu Jobs í kvöld. Reuters
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert