Mikil spenna fyrir kynningu Apple

Verslun Apple við Fifth Avenue í New York.
Verslun Apple við Fifth Avenue í New York. Reuters

Forfallnir Apple aðdáendur bíða nú með öndina í hálsinum eftir að fyrirtækið kynni nýjustu afurð sína en margir hafa spáð því að það verði s.k. „tablet" tölva, handhæg lófatölva með snertiskjá.

Apple hefur boðað til blaðamannafundar kl. 18:00 í kvöld þar sem nýjungin verður kynnt til sögunnar, en þeir Apple menn eru duglegir að vekja upp spennu í aðdraganda slíkra funda. „Enginn veit hvað Apple gæti eða gæti ekki tekið upp á," hefur BBC eftir Mike Gartenberg, varaforseta fyrirtækisins Interpret. „Það eina sem við vitum fyrir víst er að við munum fá að sjá einhverja nýja tækni eða nýja tegund af tækni."

Ótrúlega vel hefur gengið að sveipa nýju vöruna leyndarhjúp og gæta þess að ekkert leki út, en Apple hefur þó gefið til kynna að þetta verði „stórtíðindi í vöruþróun". Gangi spár eftir að um tablet tölvu sé að ræða telja margir að útfærsla Apple muni hafa álíka áhrif á þróunina og i-podinn hafði á MP3 spilara á sínum tíma, en Apple hefur um 70% markaðshlutdeild á því sviði.

Meðal annarra ágiskana er að Apple muni kynna til sögunnar nýja gerð af leikjatölvu, lestölvu eða mjög kraftmikinn iPhone.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert