Plútó roðnar

Plútó á myndum frá Hubble sjónaukanum.
Plútó á myndum frá Hubble sjónaukanum. Reuters

Myndir, sem borist hafa frá Hubble geimsjónaukanum, benda til þess að dvergplánetan Plútó, sem missti stöðu sína sem reikistjarna fyrir nokkrum árum, hafi roðnað.

Að sögn bandarísku geimferðastofnunarinnar NASA er Plútó um 20% rauðari en vanalega. Sérfræðingar segja, að ástæðan sé væntanlega sú að ísinn á yfirborði hnattarins taki breytingum á 248 jarðarára ferð sinni umhverfis sólina.

Nýju myndirnar virðast sýna, að frosið köfnunarefni á Plútó verður ljósara á norðurhvelinu en dekkra á suðurhvelinu. Í tilkynningu frá NASA segir að þessar breytingar stafi væntanlega af því að ís bráðnar þegar sólin skín á suðurpólinn en myndast aftur á hinu skautinu.  

Að sögn breska útvarpsins BBC hafa þessar breytingar komið sumum vísindamönnum í opna skjöldu. Hefur BBC eftir Marc Buie, hjá Southwest, að það komi á óvart að sjá hvað þessar breytingar verði hratt og hve miklar þær eru.  

Ekki er talið að þetta hafi haft áhrif á yfirborðshitann á Plútó, sem er áfram -233°C.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert