Meðalhiti lofthjúps jarðar hefur hækkað ört undanfarna mánuði og í janúar nálgaðist hann tölur sem sáust árið 1998 þegar áhrifa El Niño gætti sem mest í austanverðu Kyrrahafi. Veðurfræðingur segir aðra þætti hafa meiri áhrif á veðrið hér á landi. Of snemmt er því að spá sérstaklega hlýju ári á Íslandi.
Ágúst H. Bjarnason vekur á bloggi sínu athygli á upplýsingum frá Roy Spencer loftslagsfræðingi um meðalhita lofthjúps jarðar frá 1979. Þar kemur fram að meðalhitinn rauk upp 1998 en það er rakið til hlýnunar sjávar í austurhluta Kyrrahafs, að ströndum Suður-Ameríku, af völdum El Niño. Þetta náttúrufyrirbrigði er kennt við jólabarnið vegna þess að þess verður oftast vart eftir jól. Nokkur ár líða á milli El Niño og er sjórinn í straumunum ekki alltaf jafnhlýr.
Meðalhitinn nú í janúar hækkar með svipuðum hætti og 1998 þannig að gert er ráð fyrir öflugum El Niño í ár.
Einar Sveinbjörnsson, veðurfræðingur hjá Veðurvaktinni, segir að þegar El Niño nái sér á strik hlýni um 15% af yfirborði jarðar og þess sjáist merki í tölum um meðalhita allrar jarðarinnar.