Google gerir breiðbandstilraunir

Frá höfuðstöðvum Google í Kaliforníu
Frá höfuðstöðvum Google í Kaliforníu Paul Sakuma

Google tilkynnti í dag áætlanir sínar um að gera tilraunir með ofurbreiðband með háhraðatengingu sem verður allt að 100 sinnum hraðari en sú tenging sem meðal netnotandi í Bandaríkjunum notar í dag.

Háhraðatengingarnar verða prófaðar á völdum stöðum víðsvegar um Bandaríkin og verður þjónustan í boði fyrir minnst 50.000 en hugsanlega allt að 500.000 manns. „Með þessum tilraunum vonumst við til þess að leggja okkar að mörkum til þess sameiginlega markmiðs fólks um allan heim að skapa hraðar og betra internet fyrir okkur öll," segja talsmenn Google.

Yfirmaður fjarskiptastofnunar Bandaríkjanna (FCC), Julius Genachowski, fagnar þessu frumkvæði Google. „Ofurbreiðband skapar stór tækifæri," segir Genachowski. „Þessi þýðingarmikla tilraun skapar bandarískan grundvöll fyrir næstu kynslóð af nýsköpun í internettækni."

Meðalflutningsgeta breiðbanda í Bandaríkjunum er núna ekki nema 5 megabit á sekúndu og standa Bandaríkjamenn tæknivæddustu þjóðum langt að baki í þeim efnum. Sem dæmi má nefna að í Japan er meðalflutningsgetan 63 megabit á sekúndu og í Suður-Kóreu er hún 49 megabit á sekúndu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert