Vísindamönnum við Kaupmannahafnarháskóla hefur tekist að greina erfðamengi í hárlokk karlmanns sem bjó á Grænlandi fyrir 4.000 árum. Greining þeirra leiddi í ljós að maðurinn var ættaður frá Síberíu. Lítil líkindi voru á erfðamengi hans og annars vegar nútíma Grænlendinga og hins vegar innfæddra indíána í Mið- og Suður-Ameríku. Þetta kemur fram á fréttavef Yahoo, en fjallað er um málið á forsíðu vísindatímaritsins Nature.
„Þessi niðurstaða bendir til þess að þjóðflutningar hafi átt sér stað frá Síberíu til Nýja heimsins fyrir 5.500 árum sem er óháð þeim þjóðflutningum sem tengjast innfæddum í Ameríku og Inúítum,“ segir m.a. í umfjöllun fræðimannanna.
Að þeirra mati geta rannsóknarniðurstöðurnar ekki aðeins veitt svör innan fornleifafræðinnar heldur einnig hugsanlega veitt svör um nútímamanninn og sjúkdóma.
„Með þessum rannsóknum er hægt að endurskapa ekki aðeins erfðafræðilegan og landfræðilegan uppruna, heldur höfum við líka möguleika á því að vita hvernig forfeður okkar litu út,“ skrifa David Lambert og Leon Huynen hjá Griffith University í Queensland í Ástralíu í athugasemdum sínum með greininni.
Rannsóknin á erfðamengi mannsins sem gengur undir gælunafninu Inuk gefa skýrar upplýsingar um útlit hans. „Hann var með brún augu, dökka húð og sérstaka lögun á framtönnum sínum," segir Eske Willerslev, sem hafði umsjón með rannsókninni.
Út frá erfðamengi mannsins má sjá að hann yrði ungur þunnhærður eða jafnvel sköllóttur. „Vegna þess að við fundum allmyndarlegan hárlokk þá hljótum við að geta gefið okkur að hann hafi dáið ungur,“ segir Willerslev.
Maðurinn bjó meðal Saqqaq-ættbálsins, sem er elsti þjóðflokkurinn sem vitað er um að hafi lifað á Suður-Grænlandi en fólkið bjó á svæðinu frá því um 2.500 fyrir Krist og þar til 800 fyrir Krist.
Fræðimenn hafa löngum deilt um það hvaðan Saqqaq-fólkið kom, þ.e. hvort um væri að ræða afkomendur fólks sem fór yfir Beringssund fyrir 30.000-40.000 árum til þess að setjast að í Nýja heiminum eða hvort fólkið hefði komið annars staðar að og mun síðar.
Hárlokkurinn sem vísindamennirnir greindu fannst geymdur í ís á landsvæðinu þar sem Saqqaq-fólkið hélt til.