Börn sem eru of þung fyrir tveggja ára aldur berjast oft við þyngdina alla æfi. Þetta kemur fram í rannsókn bandarískra vísindamanna sem greint var frá á vef BBC.
Rannsóknin náði til ríflega hundrað barna og unglinga sem voru of þung og leiddi í ljós að rúmur helmingur þeirra var of þungur fyrir tveggja ára aldur og 90% þeirra voru of þung fimm ára gömul.
Fjórðungur barnanna var of þungur áður en fimm mánaða aldri var náð, að því er kemur fram í fagtímaritinu Clinical Pediatrics.
Meðalaldur barnanna sem þátt tóku í rannsókninni var tólf ár og voru öll þeirra of þung er þau náðu 10 ára aldri.
Þó lítið sé vitað um ástæður þess að sum börn þyngjast hratt í æsku, er talið líklegt að lélegt mataræði og ónóg hreyfing hafi sitt að segja, sem og að börnin fari of snemma að borða fasta fæðu.
Að sögn vísindamannanna hafa börn þegar um tveggja ára aldur myndað sér skoðanir á þeim mat sem þau vilja borða og matarsmekk þeirra geti reynst erfitt að breyta seinna meir.
Dr John Harrington,sem fór fyrir rannsókninni, sagði niðurstöður hennar þarfa áminningu fyrir lækna.
„Læknar bíða þess of oft að læknisfræðilegur vandi sé á ferðinni áður en þeir hefja meðferð. Að fá foreldra og börn til að breyta venjum sem þau eru þegar orðin föst í er verulega erfitt.“
Rannsóknin sýni að það verði að ræða óheppilega þyngdaraukningu smábarna.