Þunnt ryklag sem íbúar á meginlandi Evrópu hafa fundið á bílum sínum og víðar hefur að jafnan verið talið eiga uppruna sinn frá eyðimörkum í Afríku. Nú telja vísindamenn sig hafa fundið vísbendingar um að rekja megi agnir í rykinu til Íslands þar sem jöklar séu að bráðna.
Þegar jöklar bráðna skilja þeir eftir sig mikið magn af jökulleir sem vindar eiga auðvelt með að blása upp í andrúmsloftið. Joseph Prospero, prófessor við Háskólann á Miami, hefur rannsakað rykagnir í andrúmsloftinu frá árinu 1965. Hann telur að rekja megi einhvern hluta ryksins til jökulleirs sem fjúki frá Íslandi í kjölfar bráðnunar jökla.
Mælingar sem Prospero hefur gert sýna að tengsl eru á milli magns ryks í andrúmsloftinu og þurrka í Afríku. Rykið hefur aukist síðustu ár og telur Prospero að erfitt sé að skýra það einvörðungu með því að ryk frá Sahara sé að aukast. Hann telur að ryk sé að berast frá bráðnun jökla á Íslandi og styðst þar m.a. við gervihnattarmyndir. Prospero segir að enn vanti þó mikið á að menn skilji til fulls sambandið milli loftslags, regns og ryks í andrúmsloftinu.