Vísindamenn hafa dregið til baka fullyrðingar í grein í Nature Geoscience í fyrra um að sjávarborð í heiminum gæti hækkað um allt að 82 sentimetra fyrir 2100. Segja þeir að gerð hafi verið mistök í rannsókninni, að sögn Guardian. Mark Siddall, sem starfar við jarðvísindastofnun Bristol-háskóla í Bretlandi, segist nú ekki vita hvort yfirborðið muni hækka meira en hann og félagar hans spáðu eða minna.
,,Fólk gerir mistök og mistök eru gerð í vísindum," sagði Siddall sem sagði að mistökin væru á tveimur stöðum í skýrslunni og þau græfu undan henni allri. Tveir vísindamenn hefðu bent á mistökin og þakkaði hann þeim fyrir það. Öðru hverju eru birtar leiðréttingar við greinar í ritinu, sem kom fyrst út 2007, en að sögn Nature Geoscience er þetta í fyrsta sinn sem heil grein er dregin til baka.
Loftslagsnefnd Sameinuðu þjóðanna, IPCC, hafði árið 2007 spáð að vegna hlýnunar andrúmsloftsins gæti sjávarborðið hækkað um 18-59 sentimetra fyrir 2100. Margir vísindamenn fullyrtu hins vegar að nefndin væri of varkár, hækkunin yrði enn meiri. Ein rannsókn sem birt var í desember sl. gaf til kynna að hækkunin yrði 75 til 190 sentimetrar.