Breytti möndli jarðar

Íbúi situr á gluggasyllu húss síns sem eyðilagðist í jarðskjálftanum …
Íbúi situr á gluggasyllu húss síns sem eyðilagðist í jarðskjálftanum í Constitucion í Chile. Reuters

Jarðskjálftinn sem skók Chile á laugardag var svo kraftmikill að hann kann að hafa breytt stöðu mönduls jarðar og valdið því að hver sólarhringur verði örlítið styttri en áður, samkvæmt útreikningum  vísindamanns hjá bandarísku geimferðastofnuninni NASA.

Útreikningar Richard Gross, vísindamanns sem stundar rannsóknir við þrýstiloftstilraunastöð NASA í Kaliforníu, benda til þess að möndull jarðar kunni að hafa færst um 8 sentimetra í jarðskjálftanum sem var 8,8 stig. Þetta kom fram í yfirlýsingu NASA.

Hver sólarhringur á jörðinni er 24 klukkustundir því það er sá tími sem það tekur jörðina að snúast heilan hring um möndul sinn. Breyting á möndlinum getur því haft áhrif á jarðsnúninginn.

Hafi möndull jarðar raunverulega færst  um 8 sentimetra við jarðskjálftann þá styttist hver dagur um 1,26 míkrósekúndur samkvæmt útreikningum Gross. Míkrósekúnda er einn milljónasti úr sekúndu, svo breyting af þessari stærðargráðu kemur ekki fram á venjulegum klukkum.

Gross reiknaði það út að jarðskjálftinn í Chile hafi haft meiri áhrif á möndul jarðar en jarðskjálftinn úti fyrir ströndum Indónesíu árið 2004 sem var 9,1 stig. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert