Sérfræðingar Herbalife vinna að úttekt

Fyrirtækið Herbalife segir að sérfræðingar fyrirtækisins vinni að úttekt á niðurstöðum Magnúsar Jóhannssonar, læknis og prófessors í lyfjafræði, um að rekja megi lifrarskaða til neyslu Herbalifa. Segir fyrirtækið að birt verði ítarleg vísindaleg gagnrýni á niðurstöður Magnúsar þegar rannsókninni sé lokið.


Yfirlýsing Herbalife er eftirfarandi:

Herbalife er ósammála neikvæðum fullyrðingum um vörur fyrirtækisins 
sem haldið var fram í hádegisfréttum Ríkisútvarpsins í dag, enda 
hefur fyrirtækið fullt traust á öryggi Herbalife vara. Innihaldsefnin 
í vörum Herbalife eru öll vel þekkt og notuð í ýmsar matvörur víða um 
heim. Herbalife veit ekki til þess að neinar vísindalegar sannanir 
hafi komið fram sem tengi Herbalife vörur eða innihaldsefni þeirra 
við lifrarskemmdir. Vörur Herbalife eru framleiddar í Evrópu undir 
ströngu gæðaeftirliti og þær standast allar kröfur Evrópusambandsins 
um innihald og merkingar. Heilbrigðisyfirvöld í mörgum löndum hafa 
ennfremur gert umfangsmiklar úttektir á öryggi Herbalife. Engin 
þeirra hefur leitt til opinberra aðgerða eða þess að Herbalife vörur 
hafi verið teknar af markaði.

Magnús Jóhannsson, höfundur greinarinnar í Læknablaðinu sem fjallað 
var um í fréttum útvarpsins, hefur um langt árabil haldið uppi 
neikvæðum áróðri um vörur Herbalife. Hann hefur til dæmis haldið því 
fram að Herbalife vörur innihaldi ákveðin efni sem valdið geta 
lifrarskemmdum. Herbalife sýndi á sínum tíma mjög skýrt fram á að 
ásakanir hans áttu ekki við rök að styðjast. Sérfræðingar 
fyrirtækisins vinna nú að úttekt á niðurstöðum hans og munu að henni 
lokinni birta ítarlega vísindalega gagnrýni á niðurstöður Magnúsar.

Herbalife er ábyrgt fyrirtæki sem hefur allt frá árinu 1980 selt 
fæðubótarefni í 72 löndum um allan heim, þar á meðal á Íslandi. Vörur 
Herbalife hafa verið þróaðar til að stuðla að heilbrigðum og virkum 
lífstíl og fyrirtækið fylgir öllum þeim lögum og reglum sem eiga við 
um sölu og markaðssetningu vara þess á Íslandi og annars staðar.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert