Evrópskum farsímafyrirtækjum ber nú skylda til að bjóða viðskiptavinum sínum upp á eins konar „slökkvara“ á niðurhali og netnotkun til að forða þeim frá himinháum símareikningum eftir ferðir til útlanda. Búnaðurinn á að vara notendur farsíma og netpunga við þegar notkunin nær ákveðnu hámarki.
Reglur þessa efnis tóku gildi í gær, 1. mars. Þær eru hluti af regluverki um reikisímtöl í Evrópusambandinu og voru samþykktar í júní 2009.
Samkvæmt reglunum ber farsímafélögum að bjóða viðskiptavinum sínum upp á þak á netnotkun sem nemur 50 evrum (8.750 kr.) frá 1. mars 2010. Senda á viðvörun þegar netnotkunin hefur náð 80% af hámarki. Fram til 1. júlí næstkomandi þurfa notendur sjálfir að velja að virkja þetta þak. Eftir 1. júlí 2010 verður þakið sett sjálfkrafa á.
Reglugerð væntanleg á næstu dögum
Hrafnkell V. Gíslason, forstjóri Póst- og fjarskiptastofnunar, sagði breyta hafi þurft fjarskiptalögum til að heimila nokkur ákvæði í annarri tilskipuninni hvað þetta varðar. Það var gert um síðustu áramót. Í framhaldi af því þurfti að gefa út reglugerð. Hún er tilbúin og bíður birtingar í Stjórnartíðindum.
Hrafnkell sagði að breytingarnar sem kveðið er á um í tilskipuninni eigi að nýtast íslenskum neytendum eins og öðrum. Einhver aðlögunartími sé gefinn varðandi þak á netnotkun í farsímum.
„Við munum fylgjast með því hvernig gengur að innleiða þennan þátt og aðra í sambandi við vernd gegn of háum reikningum,“ sagði Hrafnkell. Einnig er sett hámarksverð milli símafyrirtækja varðandi verð á hverju megabæti o.fl. SMS fer einnig undir ákveðið verðþak.
Hrafnkell var á fundi kollega sinna í síðustu viku. Þar kom fram að þetta væri nokkuð tæknilega snúið að ýmsu leyti en að unnið sé að því að finna lausnir.
Töf varð á því að þetta tæki gildi á Evrópska efnahagssvæðinu. Til að svo yrði þurftu Ísland, Noregur og Lichtenstein að samþykkja að þetta færi strax inn. Lichtenstein gerði fyrirvara framan af en er nýlega búið að aflétta honum.
Það varð til þess að sum erlend símafélög voru sein að lækka kostnað gagnvart íslensku símafélögunum. Hafi þau ekki þegar gert það þá verður þeim ekki lengur stætt á öðru, að sögn Hrafnkels.
Síminn og Vodafone undirbúa ráðstafanir
Síminn miðar við að setja þetta þak á í síðasta lagi 1. júlí, að sögn Margrétar Stefánsdóttur upplýsingafulltrúa. Hún telur að umræddar lausnir verði til reiðu innan skamms tíma, þótt lokafrestur sé til 1. júlí.
„Við erum líka að loka á netlyklana erlendis. Fólk sem fer til útlanda þarf að biðja sérstaklega um opnun og áttar sig þá á því að þetta kostar peninga,“ sagði Margrét.
Síminn er einnig með í undirbúningi að senda notendum smáskilaboð (SMS) þegar þeir eru komnir í 80% af gagnamagni, hvort sem það er statt á Íslandi eða í útlöndum. Það á bæði við um 3G netlykla og farsíma.
Vodafone er að vinna að því að laga sig að nýju reglunum, að sögn Hrannars Péturssonar, upplýsingafulltrúa. Hann sagði að þeim þætti þessi breyting jákvætt skref.
„Það er verið að koma í veg fyrir að viðskiptavinir stofni til viðskipta sem þeir kæra sig ekki um,“ sagði Hrannar.
„Í mörgum tilvikum hefur fólk ekki verið sér meðvitað um hvað þetta hefur kostað. Því miður hefur raunin verið sú að margir hafa komið heim frá útlöndum og hafa þá verið búnir að stofna til viðskipta upp á háar upphæðir sem þeir ætluðu aldrei að gera. Við höfum engan áhuga á því, hvað sem sumir kunna að halda.“
Hrannar sagði að þessar breytingar séu nokkuð flóknar í framkvæmd en þær séu í fullri vinnslu. Hann sagði að breytingarnar verði teknar í notkun eins fljótt og unnt er.
„Við lítum á það sem sameiginlega hagsmuni okkar og viðskiptavinanna að þeir séu ekki rukkaðir um viðskipti sem þeir stofnuðu óafvitandi til,“ sagði Hrannar.
Hryllingssögur af farsímanotkun
Í frétt Evrópusambandsins um þessa nýjung eru sagðar réttnefndar hryllingssögur af netnotendum sem uggðu ekki að sér á ferðalögum.
Þjóðverji einn sem var á ferðalagi í Frakklandi í fyrra sótti sjónvarpsþátt í farsímann sinn. Hann fékk í kjölfarið farsímareikning upp á 46.000 evrur eða rúmlega átta milljónir íslenskra króna.
Önnur saga var sögð af breskum námsmanni sem notaði farsíma til að vafra um netið á mánaðarlöngu ferðalagi og fékk símareikning upp á 9.000 evrur eða tæplega 1,6 milljónir.
Þá hefur mbl.is heimildir fyrir því að það sé ekki óþekkt að íslenskir farsímanotendur hafi fengið símareikning upp á 1,5 milljónir eftir dvöl í útlöndum.
Verðþak milli símafyrirtækja
Nýju reglurnar hjá ESB kveða einnig á um að símafyrirtæki megi að hámarki rukka eina evru fyrir hvert MB sem fer á milli fyrirtækjanna. Verðið á að lækka á næstu tveimur árum. Lækkunin á að ganga til neytenda.