Áfengið heldur aukakílóunum fjarri

Konum sem drekka um það bil tvö glös af rauðvíni, bjór eða sterku áfengi daglega gengur betur en þeim sem neyta ekki áfengis að halda aukakílóunum fjarri. Þetta er niðurstaða nýrrar rannsóknar, sem birt var í tímaritinu Archives of Internal Medicine í gær.  

Vísindamenn á Brigham and Women’s sjúkrahúsinu í Boston spurðu yfir 19 þúsund konur 39 og eldri og sem höfðu eðlilegt holdafar hve mikið áfengi þær drykkju á hverjum degi. Síðan var fylgst með konunum í um það bil 13 ár.

Stærsti hópurinn, 7346 konur eða 38%, sögðust ekki drekka neitt. Næst stærsti hópurinn, 6312 konur eða nærri þriðjungur hópsins, sagðist drekka  innan við glas af léttvíni eða bjór á dag. 20% kvennanna sögðust drekka ígildi glass af léttvíni eða bjór eða sterku víni daglega, 6% sögðust drekka allt að tvo drykki á dag og 3% meira.

Á 13 ára tímabili þyngdust þær konur, sem ekkert drukku, mest en konurnar sem sögðust drekka um það bil tvo drykki á dag þyngdust minnst.   

Svo virðist sem besta áfengistegundin til að bægja burt aukakílóunum sé rauðvín en allar þær áfengistegundir, sem nefndar eru í skýrslunni: rauðvín, hvítvín, bjór eða sterkt áfengi, virðast sýna sömu „öfugu tengslin milli áfengisneyslu og hættu á að verða of þungur," segir í greininni.

Greinarhöfundar sögðust hins vegar ekki vilja mæla með áfengisneyslu sem aðferð til að berjast gegn offitu í ljósi þeirra slæmu áhrifa, sem neysla áfengis getur að öðru leyti haft á líkamlega og andlega heilsu.  

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka