Algengasta aðferðin sem beitt er við skimun fyrir blöðruhálskrabba sætir nú vaxandi gagnrýni, að sögn AFP-fréttastofunnar. Er leitartækninni, sem nefnd er PSA, lýst sem rándýrum heilbrigðishamförum.
Dagblaðið The New York Times, hefur eftir Richard Ablin, við háskólann í Arizona, að leitartæknin sem hann þróaði sjálfur fyrir fjórum áratugum síðan, sé of dýr og ekki nógu árangursrík.
Bandaríska krabbameinsfélagið, sem ekki hefur mælt með að skimað sé eftir blöðruhálskrabba frá því á tíunda áratug síðustu aldar, hefur hvatt lækna til að ræða við sjúklinga sína um áhættuna og takmarkanir skimunarinnar.
Krabbamein í blöðruhálskirtli er annað algengasta krabbameinið sem karlar greinast með og látast um 254.000 karlar vegna blöðruhálskrabba árlega. Algengast er lungnakrabbamein.
Tvær stórar rannsóknir, sem annars vegar voru framkvæmdar í Evrópu og hins vegar í Bandaríkjunum, voru birtar í fagtímaritinu New England Journal of Medicine á síðasta ári. Báðar rannsóknirnar sýndu að ekki var hægt treysta á blóðskimun til að bjarga mannslífum.
PSA skilur ekki á milli þeirra krabbameinsfruma sem dreifa sér hratt og hinna sem dreifa sér hægar og eru fyrir vikið ólíklegri til að verða sjúklinginum aldurtila, að sögn bandaríska krabbameinsfélagsins.