Verðandi mæður sem hreyfa sig reglulega geta með því móti stuðlað að auknu líkamlegu heilbrigði barna sinna. Þetta er niðurstaða vísindamanna frá Nýja Sjálandi og Bandaríkjunum, en fjallað er um málið á vef breska ríkisútvarpsins.
Konur sem eru yfir kjörþyngd eignast oftar þung börn, sem eru líklegri til að glíma við heilsufarsleg vandamál síðar á ævinni.
Nýleg rannsókn á 84 verðandi mæðrum, sem voru að eignast sitt fyrsta barn, sýndi að þær mæður sem stunduðu holla hreyfingu í hófi á meðgöngunni eignuðust aðeins léttari börn en meðaltalið.
Bresk heilbrigðisyfirvöld hafa miklar áhyggjur af því að fjölgun landsmanna sem eru yfir kjörþyngd þýði einnig að verðandi mæðrum yfir kjörþyngd fjölgar.
Rannsóknir benda nú til þess að aðstæður í móðurkviði hafa áhrif á efnaskipti barna á fullorðinsárum. Séu börn þung við fæðingu séu allar líkur til þess að þau þurfi að glíma við offitu á fullorðinsárum.
Vísindamenn við Háskólann í Auckland á Nýja Sjálandi og Háskólann í Arizona í Bandaríkjunum gerðu nýverið rannsókn þar sem þeir báðu óléttar konur að hjóla í 5-40 mínútur í viku hverri fram í a.m.k. 36 viku meðgöngunnar.
Konurnar sem hjóluðu eignuðust jafn löng börn og samanburðarhópurinn, en börnin voru að jafnaði rúmlega 140 grömmum léttari en önnur börn.
Að mati vísindamanna bendir þetta til þess að þjálfunin hafði engin áhrif á vöxt barnanna í móðurkviði, en á sama tíma minnkaði fituforði barnsins. Rannsóknin leiddi jafnframt í ljós að þjálfunin hafði engin neikvæð áhrif á viðbrögð móðurinnar við insúlíni, sem er nauðsynlegt hormón á meðgöngunni sem ætlað er að tryggja að fóstrið fái nógu mikla næringu. Rannsóknarniðurstöðurnar eru birtar í tímaritinu Journal of Clinical Endocrinology & Metabolism.
„Í ljósi þess að há líkamsþyngd ungabarna er tengd aukinni hættu á offitu síðar á ævinni, þá gæti hóflegur niðurskurður á fæðingaþyngd haft jákvæð heilsufarsleg áhrif fyrir ungviðið til lengri tíma litið,“ segir Paul Hofman, sem stjórnaði rannsókninni.
Undir þetta tekur Anne Dornhorst, sérfræðingur sem rannsakað hefur efnaskipti ólétta kvenna. Hún segir ljóst að hreyfing á meðgöngu gagnist bæði móður og barni.