Er hláturgas næsta stóra ógnin?

Hlát­urgas gæti verið næsta stóra ógn­in við and­rúms­loft jarðar. Ný dönsk rann­sókn hef­ur leitt í ljós að hlát­urgas hef­ur 300 sinn­um skaðlegri áhrif á hlýn­un jarðar og óson­lagið en kolt­ví­sýr­ing­ur (CO2). Frá þessu er greint á vef danska dag­blaðsins Politiken.

Rann­sókn­in var að stærst­um hluta gerð við Zacken­berg á Norðaust­ur-Græn­landi og leiðir hún í ljós að þegar sífreri þiðnar losn­ar ótrú­lega mikið magn af hlát­urgasi úr jörðu sem get­ur haft mjög nei­kvæð áhrif á óson­lagið. Fjallað er um rann­sókn­ina í nýj­asta hefti tíma­rits­ins Nature Geoscience.

Ljóst er að með hlýn­un jarðar eru meiri lík­ur á að svæði sem í dag ein­kenn­ast af sífrera muni þiðna með þeim af­leiðing­um að hlát­urgas losn­ar úr jörðu. Þetta mun svo aft­ur hafa enn nei­kvæðari áhrif á hlýn­un jarðar. Þetta er mat Bo El­berl­ing, pró­fess­ors við Jarðfræðistofn­un Há­skól­ans í Kaup­manna­höfn.

„Það hef­ur sýnt sig að þess­ar rann­sókn­arniður­stöður eiga ekki bara við um Zacken­berg á Norðaust­ur-Græn­landi held­ur á öllu norður­heim­skauts­svæðinu,“ seg­ir El­berl­ing. Hann hef­ur borið sam­an niður­stöður frá fimm öðrum sífrera­svæðum sem benda til þess að svipað magn af köfn­un­ar­efni sem um­mynd­ast geti í hlát­urgas sé að finna á þeim svæðum.
 
Frá ár­inu 1800 hef­ur magn hlát­urgass í and­rúms­loft­inu auk­ist mjög hratt. Um 70% af því hlát­urgasi sem finna má í and­rúms­loft­inu á sér nátt­úr­leg­an upp­runa, þ.e. hef­ur losnað úr læðingi þegar köfn­un­ar­efni brotn­ar niður í jörðinni. Mann­skepn­an ber hins veg­ar ábyrgð á um 30% af því hlát­urgasi sem finnst í and­rúms­loft­inu.

Hlát­urgas veld­ur eyðingu á óson­lag­inu í efri lög­um loft­hjúps­ins, sem nefn­ist heiðloft. Í neðri lög­um loft­hjúps­ins, þ.e. í veðrahvolf­inu, er hef­ur hlát­urgas 300 sinn­um verri áhrif en kolt­ví­sýr­ing­ur. Til sam­an­b­urðar má nefna að me­tangas er „aðeins“ 23 sinn­um skaðlegra en kolt­ví­sýr­ing­ur.

Á Vís­inda­vef Há­skóla Íslands má sjá að hlát­urgas eða glaðgas kall­ast dínit­ur­mónoxíð á máli efna­fræðinn­ar og hef­ur efna­táknið N2O. Sam­eind þess er mynduð úr einni súr­efn­is­frum­eind (O) og tveim­ur nit­ur­frum­eind­um (N) sem einnig hef­ur verið kallað köfn­un­ar­efni á ís­lensku.

Efnið var fyrst búið til árið 1776 og fram­an af notað til svæf­inga. Um miðja 19. öld var það fyrst notað af tann­lækn­um við aðgerðir.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert