Ávaxta- og grænmetisneysla dregur ekki úr krabbameini

mbl.is/Ómar

Ekki virðist hægt að minnka líkurnar á því að fá krabbamein með því að borða a.m.k. fimm skammta af ávöxtum eða grænmeti á degi hverjum eins og vísindamenn höfðu gert sér vonir um. Ný rannsókn sem náði til 500 þúsund Evrópubúa í tíu löndum leiðir í ljós að aðeins sé hægt að koma í veg fyrir 2,5% allra krabbameina með fyrrgreindu mataræði. Frá þessu er greint á vef breska ríkisútvarpsins.

Vísindamenn leggja engu að síður áherslu á að neysla ávaxta og grænmetis sé engu að síður mikilvæg þar sem hún bæti heilsufar að öðru leyti og dragi úr líkum á hjarta- og æðasjúkdómum sem ein algengasta dánarorsök á Vesturlöndum.

Árið 1990 mælti Alþjóðaheilbrigðisstofnunin með því að allir borðuðu a.m.k. fimm skammta af ávöxtum og grænmeti til þess að minnka líkur á krabbameini og öðrum krónískum sjúkdómum. Vísindarannsóknir hafa hins vegar enn ekki getað sýnt fram á ótvírætt samband ávaxta- og grænmetisneyslu og þess að minnka líkur á krabbameini.

Nýjasta rannsóknin var unnin á vegum Mount Sinai læknaskólans í New York og í henni var tekið tillit til lífsstíls þátttakenda, s.s. þess hvort þeir reyktu og hreyfðu sig reglulega. Fjallað er um rannsóknarniðurstöðurnar í tímaritinu Journal of the National Cancer Institute. Þar segjast vísindamennirnir ekki getað útilokað að skýra megi örlitla minnkun á líkum á krabbameini með neyslu ávaxta og grænmetis með því að þeir sem borðuðu ávexti og grænmeti daglega lifðu einfaldlega heilsusamlegra lífi. 

Í besta falli dró aukin ávaxta- og grænmetisneysla úr líkum á krabbameini hjá körlum um 2,6% og hjá konum um 2,3%. Vísindamennirnir benda engu að síður á að neysla tómata geti dregið úr líkum á blöðruhálskirtilskrabbameini, meðan efni í spergilkáli örvar gen sem vernda líkamann gegn ristilkrabbameini.


 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert