Fréttaskýring: Boðberi nýrra tíma eða stofustáss furðufugla?

Tölvuáhugamenn skoða iPad í verslun í New York.
Tölvuáhugamenn skoða iPad í verslun í New York. Reuters

Mikið hefur verið látið með iPad-spjaldtölvuna frá Apple allt frá því fyrstu fréttir bárust af henni í ársbyrjun og þar til hún kom á markað nú í vikunni. Fréttir herma að fyrsta daginn hafi selst 300.000 tölvur og menn þegar byrjað að nota þær: sótt sér ríflega milljón forrit og um 250.000 bækur.

Æsingurinn kemur ekki á óvart, Apple-vinir hafa jafnan tekið vel við sér þegar ný tækni frá fyrirtækinu hefur komið í sölu, en almenningur hefur líka látið hrífast af tækinu og það að vonum – iPad gæti orðið boðberi mikilla breytinga.

Fræðingar kveina en lýður fagnar

Keppinautar Apple hafa jafnan gætur á fyrirtækinu því þó það sé ekki stórt samanborið við risana í PC-heiminum, þá hefur tækni þaðan jafnan haft töluverð áhrif á tölvunotkun almennt og menn keppst við að tileinka sér tækni sem Apple-bændur hafa fundið upp eða nýtt á nýjan hátt. Spjaldtölvur eru til að mynda tækni sem fjölmargir framleiðendur hafa glímt við en þá jafnan með það í huga að troða heilli fartölvu í pakkann með samsvarandi þyngslum og hita og ekki síst kostnaði. iPad fer aðrar leiðir og því er tölvan léttari, meðfærilegri og ódýrari; víst er hún ekki staðgengill fartölvunnar, enda ekki tilgangurinn.

iPad er á stærð við samanbrotinn Sunnudagsmogga; 24,2 sentimetrar á hæð, 18,9 á breidd, 1,34 á þykkt. Það módel sem nú er í sölu með þráðlausu neti er um 680 grömm að þyngd, en þegar 3G-símatenging bætist við í sumar þyngist tölvan um 50 grömm. Tölvan hefur verið kölluð spjaldtölva, enda er hún eins og spjald með snertiskjá og ekki við hana neitt lyklaborð, heldur birtist það á skjánum þá menn þurfa að nota það. Einfaldast er að lýsa græjunni sem stækkaðri gerð af iPod Touch, sem segir þó ekki nema hluta sögunnar því stærðin gerir svo margt mögulegt að í raun er þetta glænýtt tæki. Skjárinn á iPad er 9,7“ snertiskjár með svonefndu Multi-Touch, sem gerir að verkum að hægt er að nota fingurna á mun fjölbreyttari hátt en ella, eins og þeir þekkja sem séð hafa einhvern með iPhone eða iPod Touch stækka mynd eða fletta.

Bara eitt í einu, takk

Á síðustu mánuðum og árum hafa blaða- og tímaritaútgefendur sopið seyðið af því að hafa ekki áttað sig á að vefurinn væri ekki framlenging á prentmiðlum þeirra, að hafa ekki áttað sig á að miðlun upplýsinga á vefnum lúti öðrum lögmálum en í kjötheimum. Í árdaga netsins byrjuðu þau að dreifa efni blaðanna (og tímaritanna) ókeypis á netinu, en treystu á að sala á pappírsútgáfunni myndi halda sínu. Allt fór þó á annan veg eins og menn hafa fengið að kenna á og það rækilega. Margir hafa tekið iPad fagnandi og telja greinilega að sú græja og aðrar spjaldtölvur sem fylgi í kjölfarið eigi eftir að skera þá úr snörunni enda mun ódýrara að senda efni blaðs með þráðlausu neti í spjaldtölvur en að prenta það í prentvélum upp á hundruð milljóna og síðan bera heim til fólks. Nú síðast (og ekki í fyrsta sinn) lýsti blaðaútgefandinn Rupert Murdoch, eigandi News Corp, því yfir að iPad gæti reynst bjargvættur dagblaðaútgáfu: „Ég sá framtíðina um helgina þegar ég leit Apple iPad, það er frábært fyrirbæri. Ef dagblöðum fækkar og spjaldtölvum fjölgar gæti það bjargað dagblaðaiðnaðinum.“

Ekki er gott að segja til um hvort þessi framtíðarspá Murdochs gangi eftir, en ljóst að það að lesa dagblað á iPad er talsvert þægilegra en á eldri gerðum lesara, til að mynda Kindle frá Amazon, og eins er það handhægara en að nota fartölvu til þess arna. Að því leyti er ekkert ótrúlegt að framtíðarlesendur Morgunblaðsins, kannski á næsta áratug, eigi eftir að lesa blaðið í einhverskonar lesara eða spjaldtölvu sem tekur við efninu að nóttu og uppfærir það jafnvel jafnharðan, til að mynda um fjórðu kynslóðar símanet (4G). Á milli þess sem notandinn les fréttir af væntanlegri skýrslu og áliti rannsóknarnefndar Alþingis getur hann síðan lesið bækur á tólinu, horft á myndskeið eða sjónvarpsefni, nú eða lesið bækur sem hann hefur keypt hjá Amazon. Spjaldtölvan a tarna verður sennilega ekki iPad, heldur ódýrara apparat með Android-stýrikerfi, en menn munu eflaust hugsa hlýtt til frumherjans.

Android / Windows

Steve Jobs, forstjóri Apple, hampar iPad.
Steve Jobs, forstjóri Apple, hampar iPad. Reuters
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert