Leitarvélin Bing, sem kemur úr smiðju Microsoft, jók hlutdeild sína á bandaríska vefleitarmarkaðinum í mars. Á sama tíma skrapp hlutdeild Google lítillega saman að sögn vefsérfræðinga comScore.
Hlutur Bing jókst í 11,7% í mars, en hann var 11,5% í febrúar. Þetta er 10. mánuðurinn í röð sem Bing bætir aðeins við sig.
Hlutdeild Yahoo!, sem samýtir leitarvélar með Microsoft, jókst í 16,9% mars, en var 16,8% í febrúar.
Google ræður hins vegar enn lögum og lofum á þessum markaði. Í mars féll hlutdeild Google hins vegar í 65,1%, en var 65,5% í febrúar.
Ask er með 3,8% og AOL er með 2,5% í mars.
Microsoft svipti hulunni af Bing í júní í fyrra og hóf í framhaldinu 100 milljóna dala auglýsingaherferð til að kynna vélina, sem er sett til höfuðs Google.