Hættuleg geislun frá sparperum

mbl.is/Skapti Hallgrímsson

Nýjar rannsóknir á vegum ITIS-stofnunarinnar í Sviss benda til þess að sparperur séu ekki skaðlausar. Sökum þessa mæla heilbrigðisyfirvöld í Sviss til þess að fólk haldi sig a.m.k. í 30 sm fjarlægð frá perunum.

Svissneskir vísindamenn hafa mælt áhrif þeirrar geislunar sem sparperur senda frá sér á manneskjur. Niðurstaða þeirra er sú að verði manneskja fyrir fimmtíu földu þeirri hámarksgeislun sem leyfileg er frá perunum, þá geti það valdið skyndilegum tauga- og vöðvaskaða sem svo aftur geta valdið hjartsláttartruflunum.

Þess skal getið að allar þær sparperur sem vísindamenn rannsóknarinnar skoðuðu uppfylltu ákvæði um hámarksgeislun. Hins vegar ber að hafa í huga að því styttri sem vegalengdin er milli sparperunnar og manneskjunnar þeim mun meiri eru geislunaráhrifin. Vísindamennirnir komust einnig að þeirri niðurstöður að útfjólubláu geislarnir sem perurnar senda frá sér geti haft skaðleg áhrif á húðina.


Mirjane Moser, sérfræðingur hjá heilbrigðisráðuneytinu í Sviss, telur rannsóknina mikilvæga. Hún bendir á að mikilvægt sé að hafa í huga að þó sparperur séu ekki hættulegar í sjálfu sér núna þá vanti rannsóknir sem sýni fram á perurnar valdi ekki skaða til lengri tíma litið.

„Það er ekkert sem bendir til þess að þú verðir fyrir tauga- og vöðvaskaða þó þú sitjir nærri sparperu í dag. En við vitum ekki hvaða áhrif nálægðin við perurnar hafa til lengri tíma litið. Við getum ekki tryggt að fólk verði ekki veikt vegna þessa eftir tuttugu ár,“ segir Moser. Hún mælir með því að fólk haldi sig alltaf í a.m.k. 30 sm fjarlægð frá perunum.





mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert