Geimvísindastofnun Bandaríkjanna (NASA) segir öskufallið frá Eyjafjallajökli, sem hefur lamað flugsamgöngur í Evrópu, muni ekki trufla heimkomu geimferjunnar Discovery, en hún á að snúa aftur til jarðar á morgun.
Sjö manna áhöfn geimferjunnar undirbýr nú heimkomuna, en hún flutti m.a. vistir út í geim og þá hefur hún unnið að viðgerðum í alþjóðlegu geimstöðinni (ISS). Geimfararnir eiga lenda á Kennedy geimferðamiðstöðinni í Flórída klukkan 12:51 að íslenskum tíma á morgun.
„Eldgosið á Íslandi mun ekki trufla lendingu Discovery á mánudag. Leiðin til baka er ekki nálægt öskuskýinu,“ var skrifað á Twitter örbloggvef Kennedy geimferðamiðstöðvarinnar.
Ferð Discovery markaði tímamót þegar fjórar konur voru staddar úti í geimi á sama tíma. Þá voru tveir japanskir geimfarar einnig saman úti í geimi í fyrsta sinn.
Geimfararnir fluttu um átta tonn af tæknibúnaði, vistum o.fl. með sér út í geim.