Ríflega hálf milljón notenda heimsótti mbl.is í síðustu viku, eða 520.881, og er það metaðsókn á íslenskan fréttavef. Tæplega þriðjungur var erlendis frá, samkvæmt samræmdri vefmælingu Modernus, en að jafnaði hafa notendur mbl.is verið um 350 þúsund á viku frá áramótum.
Fyrra metið var frá vikunni eftir gosið á Fimmvörðuhálsi í mars en þá voru notendur vefjarins rúmlega 413 þúsund talsins.
Í liðinni viku var aðsóknarmet innan dags slegið í tvígang, fyrst á miðvikudag með 205 þúsund notendum en það stóð ekki lengi því að á fimmtudag fóru notendur innan dags yfir 223 þúsund.
Hver notandi er aðeins talinn einu sinni á tímabilinu, hvort sem um er að ræða dag eða viku. Innlit á mbl.is fóru hins vegar yfir 3,7 milljónir í vikunni og síðuflettingar nálguðust 18,6 milljónir.