Huliðsheimur afhjúpaður

Áður óþekkt teygjudýr, af ættbálki slímdýra.
Áður óþekkt teygjudýr, af ættbálki slímdýra.

Umfangsmesta rannsókn, sem gerð hefur verið á lífverum sjávar, bendir til þess að í heimshöfunum lifi hundruð milljóna áður óþekktra örverutegunda.

Þótt örverurnar séu fallegar á myndum eru margar þeirra svo smáar að þær eru ósýnilegar fyrir mannsaugað. Flestar þeirra eru bakteríur, en á meðal þeirra eru einnig ormar sem grafa sig í sjávarbotninn og skordýr sem eru aðeins einn millimetri á lengd.

Vísindamennirnir hafa notað fjarstýrða kafbáta til að rannsaka huliðsheima hafdjúpanna og beitt nýrri tækni á borð við erfðafræðilega raðgreiningu til að greina örverurnar í sundur.

Yfir 2.000 vísindamenn frá meira en 80 löndum tóku þátt í rannsókninni sem var gerð á 1.200 stöðum í heiminum. Rannsóknin hefur staðið í tíu ár og henni lýkur formlega í Lundúnum 4. október.

Fyrir rannsóknina höfðu vísindamenn greint um 20.000 tegundir sjávarörvera. „Heildarfjöldi sjávarörvera, meðal annars baktería og fornbaktería, samkvæmt sameindalýsingu, er líklega nær milljarði,“ hafði fréttastofan AFP eftir John Baross, formanni ráðgjafarnefndar alþjóðlegu rannsóknarinnar sem nefnist International Census of Marine Microbes (ICoMM).

Sjávarörverurnar eru alls um 50-90% af heildarmassa allra lífvera heimshafanna og samanlögð þyngd þeirra er álíka mikil og þyngd 240 milljarða Afríkufíla, að sögn vísindamannanna.

Rannsóknin getur veitt vísindamönnum mjög mikilvæga innsýn í hlutverk sjávarörveranna í fæðukeðjunni og vistkerfinu. Þeir segja að örverurnar gegni mjög mikilvægu hlutverki í því að viðhalda þeim skilyrðum sem nauðsynleg eru til að maðurinn geti lifað af á jörðinni, m.a. með því að breyta koltvísýringi úr andrúmsloftinu í kolefni sem fer aftur í jarðveginn.

Vísindamennirnir hafa þegar fundið örverur með 18 milljónir ólíkra DNA-raða, að því er fram kemur á fréttavef The Times. Vísindamennirnir hafa meðal annars fundið firnastórar örverubreiður sem þekja hafsbotninn eins og teppi. Ein þeirra er undan vesturströnd Suður-Ameríku og á stærð við Grikkland, eða um 130.000 ferkílómetrar. bogi@mbl.is

Sæfífilstegund með arma til að grípa fæðu.
Sæfífilstegund með arma til að grípa fæðu.
Áður óþekkt þörungategund.
Áður óþekkt þörungategund.
Lirfa skjaldkrabbategundar.
Lirfa skjaldkrabbategundar.
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert