Nýtt andlit hefur verið grætt á ungan spænskan bónda, sem fékk haglaskot í andlitið fyrir fimm árum. Aðgerðin var gerð á Vall d'Hebron háskólasjúkrahúsinu í Barcelona 20. mars og er sú fyrsta þar sem heilt andlit er grætt á sjúkling. Í fyrri andlitsaðgerðum, sem gerðar hafa verið, hefur hluti andlits verið græddur á sjúklinga.
Fram kemur á vef Sky fréttastofunnar, að aðgerðin stóð yfir í 24 stundir og tóku 30 læknar þátt í henni.
Bóndinn gat ekki andað, kyngt og talað hjálparlaust eftir slysið. Gerðar höfðu verið 9 aðgerðir á honum án árangurs og því var eina úrræðið að græða á hann nýtt andlit. Græddir voru nýir andlitsvöðvar, húð, nef, varir, tennur, gómur og kinnbein í manninn.