Bráðnun íss veldur meiri hlýnun en hingað til hefur verið talið

Bráðnun íss hefur verulega flýtt hlýnun sjávar á norðurhjara veraldar, þar sem hitastig sjávar hefur undanfarin ár hækkað mun meira en annars staðar. Niðurstöður rannsóknar sem birtar eru í nýjasta hefti Nature, benda ennfremur til að fyrri spár um hlýnun sjávar vanmeti stórlega hversu mikið sjór við norðurheimskautið gæti hlýnað á næstunni.

„Hingað til hefur verið talið að bráðnun íss í sjó gæti ýtt undir hlýnun. Nú höfum við staðfest að svo sé,“ hefur AFP-fréttastofan eftir James Screen, vísindamanni við háskólann í Melbourne og einum höfunda rannsóknarinnar.

Bráðnun íss í Norðuríshafi er um þessar mundir bæði afleiðing og orsök hnattrænnar hlýnunar, segja vísindamennirnir. Vítahringur myndast þar sem meiri hlýnun orsakar meiri bráðnun sem aftur orsakar meiri hlýnun. Ísinn á yfirborði sjávar endurkastar nefnilega sólarljósi sem nær þannig ekki að hita sjóinn jafn mikið og þegar enginn ís er á yfirborði hans.

Frá 1989 til 2008 hefur sjávarhiti að jafnaði hækkað um 0,5° á celsíus. Hitinn í Norðuríshafi hefur hins vegar hækkað um 2,1°.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert