Engin ein orsök hefur fundist fyrir mikilli fækkun býflugna sem hefur orðið vart í Evrópu, Banaríkjunum, Japan og víðar. Í Bandaríkjunum hefur býflugum til að mynda fækkað um þriðjung á hverju ári síðustu þrjú ár, sem veldur áhyggjum af uppskeru sem veltur á því að flugurnar beri frjókorn á milli plantna.
Sníkjudýr, veiru- og bakteríusýkingar, notkun meindýraeiturs og önnur hegðun mannanna sem hefur áhrif á nægingu flugnanna, er meðal þess sem Alþjóða dýraheilsustofnunin (OIE) segir að valdi þessari skyndilegu og dularfullu fækkun býflugna. Talið er að bændur hafi orðið af milljörðum dollara vegna áhrifa þessa á uppskeru þeirra.
„Útrýming þeirra væri líffræðilegt stórslys“
„Hunang og drottningarhunang eru dæmi um dýrmætar matartegundir sem við megum þakka býflugunum,“ segir Bernard Vallat, forstjóri hjá OIE. Bendir hann þó á að meira áhyggjuefni sé að uppskera grænmetis og ávaxta er undir flugunum komið. „Býflugur eru mikilvægar fæðuöryggi heimsins, og útrýming þeirra væri líffræðilegt stórslys.“
Í frétt AFP-fréttaveitunnar af málinu segir, að talið sé að allt að þriðjungur þess matar sem menn leggja sér til munns, sé með einum eða öðrum hætti háð því að býflugur haldi áfram að sinna sínu hlutverki.