Hakkarar hagnýta eldgosið

Eldgosið í Eyjafjallajökli er á meðal þess vinsælasta í leitarorðum …
Eldgosið í Eyjafjallajökli er á meðal þess vinsælasta í leitarorðum tölvunotenda. Ragnar Axelsson

Netskúrkar ýmsir hafa hagnýtt sér eldgosið í Eyjafjallajökli til skemmdarverka, að því er segir í fréttabréfi Spamfighter. Þeir hagnýta sér forvitni og fróðleiksfýsn tölvunotenda nú þegar eldgosið er ofarlega í hugum margra - ekki síst strandaglópa á flugvöllum heimsins.

Fólk leitar upplýsinga og fróðleiks á netinu í gegnum leitarvélar. Leitarorð sem tengjast eldgosinu og trruflunum á flugi hafa verið mjög vinsæl. Skúrkar þessir nýta sér tækni sem kennd er við svartan hatt (Black Hat Search Engine Optimization) til að skjóta inn slóðum að spellvirkjasíðum í leitarniðurstöður.

Vilji fólk sjá íslenskar eldgosamyndir og slái inn í leitina t.d. „Iceland volcano picture“, sem mun vera algengasta leitarbeiðnin um þessar mundir að sögn fréttabréfsins, inniheldur önnur síðan í leitarniðurstöðum skaðlegt efni. 

Þar er tölvunotendum beint að vefsíðum sem sýna falskar öryggisviðvaranir og reyna að blekkja fólk til að hlaða niður eða sækja í tölvur sínar veiruvarnarforrit sem í raun eru allt annað.

Starfsmenn leitarvélar Google hafa orðið varir við aukningu á fölskum veiruviðvörunum og spilliforritum á vefnum. Falskar veiruviðvaranir eru um 15% af spilliforritum á vefnum. Þeir benda einnig á að tölvuárásir undir yfirskyni falsaðra veiruviðvarana séu um 60% af skaðlegum forritum sem finnast á lénum sem innihalda vinsælustu leitarorðin.

Það þykir ógnvænleg staðreynd að eftir að eldgos hófst í Eyjafjallajökli skili vefleit að orðum á borð við „Iceland Volcano“ (Ísland eldfjall) og „Iceland Volcanic Eruption“ (Ísland eldgos) fjölda af hökkuðum vefsíðum.

Tölvunotendum er bent á að besta leiðin til að forðast árásir með ýmsum hryllings- og spillihugbúnaði sé að smella aldrei á og samþykkja óþekktar vefslóðir. Þrátt fyrir ítrekaðar viðvaranir  þar að lútandi verði fólk stöðugt að fórnarlömbum eigin forvitni og þurfi að gjalda fyrir það.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert