Safna upplýsingum um þráðlaus net

Google.
Google. Paul Sakuma

Komist hefur upp um, að götumyndabílar (e. street view cars) Google ljósmyndi ekki aðeins götusýn á ferð sinni um bandarískar, evrópskar og ástralskar borgir heldur safna þeir einnig saman upplýsingum um þráðlaus net. Google liggur undir ámæli fyrir að virða ekki persónuvernd, og ekki í fyrsta skipti.

Götumyndabílar Google bera bæði loftnet og myndavélar. Með svokölluðum Wi-fi loftnetum eru þráðlaus net skráð, nöfn þeirra og MAC-vistföng, að því New Scientist greinir frá.

Forsvarsmenn Google segja fyrirtækið safna upplýsingunum svo notendur snjallsíma geti með meiri nákvæmni staðsett sig með kortaþjónustu Google (e. Google Maps), sérstaklega þar sem GPS-staðsetningartækni er óáreiðanleg.

Jafnframt hefur verið upplýst um, að Google er ekki fyrsta né eina fyrirtækið sem safnar upplýsingum um þráðlaus net. Bandaríska fyrirtækið Skyhook Wireless safnar sömu upplýsingum, sem eru notaðar í tengslum við kortaþjónustu farsímaframleiðandans Motorola, og finna má í ýmsum símtækjum hans.


mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert