Umbúðir skipta máli

Latibær
Latibær mbl.is/Heiðar Kristjánsson

Hollur matur bragðast betur í Latabæjarumbúðum, samkvæmt niðurstöðum rannsóknar Rannsóknastofu í næringarfræði við Háskóla Íslands og Landspítala. Niðurstöðurnar birtust í vefútgáfu vísindatímaritsins Public Health Nutrition í vikunni.

Í tilkynningu frá Háskóla Íslands kemur fram að börn læra snemma að þekkja vörumerki. Ýmsir matvælaframleiðendur hafa nýtt sér vörumerki sem höfða til barna til þess að markaðssetja vörur sem oftar en ekki eiga það sameiginlegt að innihalda annað hvort of mikið af viðbættum sykri eða mettaðri fitu, eða vera snauðar af næringarefnum.

Offita hefur aukist gríðarlega á síðastliðnum áratugum. Talið er að markaðssetning skyndibita og skyldra vörutegunda ætluðum börnum eigi þar hlut að máli.

Markmið verkefnisins var að kanna hvort börnum á leikskólaaldri þætti matur sem borinn er fram í Latabæjarumbúðum betri en matur sem borinn er fram í hefðbundnum umbúðum. Börnin voru beðin um að meta fimm pör af samskonar mat og drykk (trefjaríkt brauð, gulrætur, ávaxtasafa, jógúrt og vatn), borið fram annars vegar í Latabæjarumbúðum og hins vegar í hefðbundnum umbúðum. Alls luku 66 börn tilrauninni.

Sýnin voru borin á borð og eftirfarandi spurning borin upp: “Getur þú sagt mér hvort þér finnist “maturinn” (þ.e. brauðið, safinn o.s.frv.) eins á bragðið eða hvort þér þyki annað betra heldur en hitt? ” F

lest börnin svöruðu því réttilega til að sýnin væru eins á bragðið, en í 27-42% tilfella (mismunandi eftir matvælategundum) töldu börnin að „Latabæjarmaturinn” væri betri á bragðið þrátt fyrir þá staðreynd að hann væru í raun eins. Niðurstöðurnar benda til þess að sú leið að pakka hollum matvælum í umbúðir sem höfða til barna gæti nýst vel, ásamt öðrum leiðum, til þess að stuðla að bættu mataræði meðal barna.

Verkefnið hlaut styrk frá Tækniþróunarsjóði Rannís (forverkefnisstyrk). Verkefnisstjóri var Ingibjörg Gunnarsdóttir prófessor í næringarfræði við Matvæla- og næringarfræðideild Háskóla Íslands. Inga Þórsdóttir, prófessor í næringarfræði er höfundur greinarinnar ásamt Ingibjörgu. Það skal tekið fram að höfundar greinarinnar hafa engra hagsmuna að gæta er tengjast sölu á matvælum sem merkt eru Latabæ, að því er segir í tilkynningu.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert