Engin tengsl milli krabbameins og farsímanotkunar

Reuters

Farsímanotkun virðist ekki auka hættuna á því að fólk fái heilakrabbamein. Þetta kemur fram í rannsókn Alþjóðlegu rannsóknarstofnunarinnar í krabbameinsfræðum (IARC). Alls tóku 10.000 manns þátt í rannsókninni, sem er sú stærsta sinnar tegundar.

Fram kemur á fréttavef breska ríkisútvarpsina að engin vitneska er fyrir hendi um að farsímar geti valdið krabbameini. Margir hafi hins vegar haft áhyggjur af þessu.

Vonir standa til þess að rannsóknin muni draga úr áhyggjum fólks. Þetta verður hins vegar áfram rannsakað.

Tekið er fram að tíðni heilakrabbameins hafi ekki hækkað í löndum þar sem farsímanotkun hefur verið mikil um árabil. Svíþjóð er nefnt sem dæmi. Rannsóknir hafi ekki sýnt fram á aukna tíðni krabbameins í heila. Niðurstöður IARC eru í takt við þetta.

Fram kemur á vef BBC að rannsóknin hafi kostað yfir þrjá milljarða króna, en farsímafyrirtæki greiddu fyrir hluta hennar. 

Alls voru 5.000 karlar og 5.000 konur frá 13 löndum rannsökuð. Fólkið átti það sameiginlegt að hafa greinst með tvær tegundir af heilakrabbameini á milli áranna 2000 og 2004, eða glioma og meningioma.

Talið er að farsímanotkun geti haft áhrif á þessar tegundir krabbameina. Tekið er fram að um sjaldgæfar tegundir sé að ræða.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert