Rafbílaleigu, fyrir starfsmenn og nemendur Háskólans í Reykjavík, undir heitinu Forskot, var sett af stað í orkutæknistofu HR við Nauthólsvík í dag. Menntamálaráðherra, Katrín Jakobsdóttir, fékk fyrsta bílinn lánaðan til að skjótast á fund í næsta nágrenni.
Í fréttatilkynningu kemur fram að með rafbílaleigunni verður nemendum og kennurum gert kleift að leigja rafbíla til að sinna óvæntum erindum eða fundum yfir daginn. Rafbílaleigan er hluti af rannsóknarverkefni tækni- og verkfræðideildar HR og er markmiðið að kanna forsendur rafvæðingar einkabíla og almenningssamgangna í Reykjavík.
Rafbílarnir eru gerðir af nemendum tækni- og verkfræðideildar HR.
Að athöfn lokinni hefst tæknidagur Háskólans í Reykjavík þar sem nemendur tækni- og verkfræðideildar HR sýna afrakstur vetrarins, innandyra sem utan, svo sem kafbáta, vélmenni og fleira.