Grænlandsjökull bráðnar svo hratt að landrisið undir honum hefur aukist verulega, samkvæmt rannsókn bandarískra jarðvísindamanna.
Rannsóknin bendir til þess að á sumum strandsvæðum nemi landrisið um það bil 2,5 sentímetrum á ári, að sögn vísindamanna við Miami-háskóla. Haldi þessi þróun áfram getur landrisið orðið allt að 5 sentímetrar á ári fyrir árið 2025, að sögn Tims Dixons, prófessors í jarðeðlisfræði, en hann stjórnaði rannsókninni.
„Vitað hefur verið í nokkur ár að loftslagsbreytingar hafa stuðlað að bráðnun jökulbreiðunnar á Grænlandi,“ sagði Dixon. „Það sem kemur á óvart og er svolítið áhyggjuefni er að jökullinn bráðnar svo hratt að við getum eiginlega séð landið rísa vegna bráðnunarinnar. Landrisið virðist vera að aukast og það bendir til þess að bráðnunin sé einnig að aukast.“
Haft er eftir einum vísindamannanna, Shimon Wdowinski, að sama þróun hafi átt sér stað á Íslandi og Svalbarða án þess að það sé útskýrt frekar. Skýrt er frá rannsókninni í nýjasta hefti tímaritsins Nature Geoscience.