„Þetta vekur auðvitað á siðferðislegar spurningar um hvað er hægt að gera með lífverur,“ segir Zophonías O. Jónsson erfðafræðingur um þau tíðindi að erlendum vísindamönnum hafi tekist að setja gervierfðaefni í bakteríu. Zophonías segir þó að afar langt sé í fyrsta gervimanninn.
„Bakteríulitningurinn sem var smíðaður er með um eina milljón basapara. Til samanburðar er maðurinn með 6.000 sinnum meira. Þannig að lesendur geta ímyndað sér hvað það yrði miklu flóknara að gera sama hlutinn,“ segir Zophonías sem er dósent í sameindalíffræði við Háskóla Íslands.
- Hvað er langt í fyrsta gervimanninn?
„Ég ætla ekki að reyna að spá fyrir um það, en það verður talsverð bið þangað til að við sjáum fyrsta heilkjörnunginn eins og til dæmis gersvepp, sem er miklu skyldari okkur manninum en bakteríur.
Það eru líklegast áratugir í það að það verði tæknilega mögulegt að smíða mannalitninga en auðvitað dytti engum heilvita manni í hug að beita þessari tækni til að búa til menn.“
- Hvað með líffæri?
„Ef við viljum fá líffæri sem varahluti er miklu einfaldara að byrja á því sem er til, það er að segja úr stofnfrumum. Það er miklu einfaldari leið að markinu. Þessi uppgötvun hefur engin áhrif á það.“
Rannsóknin vekur heimsathygli
Rannsóknin sem bandaríski erfðafræðingurinn Craig Venter fór fyrir hefur vakið heimsathygli en fjallað er um niðurstöðurnar í vísindaritinu Science.
Þannig hafa fjölmiðlar slegið því upp að vísindamönnunum hafi tekist að skapa gervilíf, afrek sem ryðja kunni brautina fyrir frekari lífverasmíði í framtíðinni.
Zophonías segir að þótt slíkar frásagnir séu talsvert ýktar sé tilraunin að mörgu leyti afar áhugverð.
„Þetta er tæknilega mjög áhugavert. Síðustu 15 árin hafa Venter og félagar reynt að endursmíða bakteríulitning. Fyrir 15 árum raðgreindu þeir bakteríu sem heitir Mycoplasma genetalium og er með mjög lítið erfðamengi, eitt það minnsta sem til er í bakteríum. Það eru ekki nema 600.000 basapör.
Þeir fengu þá hugmynd að smíða þetta í tilraunaglasi. Það er hægt að setja saman DNA-sameindir og skipta út litningnum í bakteríu með litningi sem væri búið að smíða. Það er eins og að taka stýrikerfið úr tölvu og setja inn öryggisafrit. Það er því ekki það sama og að smíða tölvuna. Þeir eru langt frá því að geta búið til nýja tölvu.“
Bakterían er ekki einföld
Zophonías heldur áfram.
„Þó fjölmiðlar segi að þeir séu búnir að smíða nýja lífveru er það ekki alveg satt því að lífveran sjálf, það er að segja bakterían, er ekki einföld. Það er himna utan um hana og fjöldi prótína inn í bakteríunni sem sér um að afrita kjarnsýruna og umrita hana yfir í prótín.
Erfðaefnið sjálft gerir ekki neitt nema að það sé inn í bakteríunni. Þeir hafa ekki smíðað nýja bakteríu heldur hafa þeir sett inn nýtt erfðaefni í stað þess sem var fyrir. Þeir hafa skipt á litningnum í bakteríunni.
Verkefnið kostaði um fjóra milljarða. Það eru útrásavíkingastærðir. Þetta er ekki eitthvað sem við förum að gera í bílskúrum.“
Frægur og umdeildur
Að sögn Zophoníasar er Venter einna frægastur fyrir að standa fyrir því á sínum tíma að raðgreina erfðamengi mannsins.
Venter hafi síðan orðið umdeildur er hann reyndi að fá einkaleyfi á genum í erfðamenginu.
„Þessi árangur á eykur talsvert á hróður hans og sumir hafa orðað hann við nóbelsverðlaun. Hann verður þó ekki minna umdeildur,“ segir Zophonías.