Dánartíðni barna afar lág hér

Mjög hefur dregið úr barnadauða í heiminum
Mjög hefur dregið úr barnadauða í heiminum Reuters

Dánartíðni barna undir fimm ára aldri er næst lægst á Íslandi í heiminum. Á Íslandi deyja 2,6 börn af hverjum þúsund  fyrir fimm ára aldur. Í Singapúr er hlutfallið lægra eða 2,5. Þar hefur dregið stórlega úr barnadauða á síðustu tuttugu árum samkvæmt nýrri rannsókn sem birt er í læknaritinu Lancet í dag. Byggir rannsóknin á upplýsingum frá 187 löndum á tímabilinu 1970 til 2010.

Dánartíðni ungra barna er mest í Bretlandi ef litið er til ríkja Vestur-Evrópu en þar í landi deyja 5,3 börn yngri en fimm ára af hverjum 1000.

Rannsóknin sem kynnt er í Lancet er unnin af rannsóknarteymi við Washington háskóla í Seattle. Samkvæmt henni er áætlað að 7,7 milljónir barna undir fimm ára aldri muni deyja í ár. Hefur verulega dregið úr barnadauða í heiminum á síðustu tuttugu árum en árið 1990 dóu 11,9 milljónir barna yngri en fimm ára. Stærsti hluti þeirra barna sem deyja í ár eru búsett í ríkjum sunnan Sahara í Afríku og Suður-Asíu.

Bólusetningar, lyf við alnæmi, A-vítamín, betri meðferðir við niðurgangi, malaríu og lungnabólgu er meðal þess sem hefur dregið úr barnadauða í heiminum. Auk þess sem bætt menntun kvenna hefur dregið úr barnadauða segir  Dr. Christopher J. L. Murray, höfundur skýrslunnar sem birt er í Lancet, í viðtali við New York Times.

Frétt BBC af rannsókninni

Frétt New York Times

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert