Steve Ballmer, forstjóri Microsoft, segist ekki hafa áhyggjur af því að Apple hafi tekið fram úr Microsoft og sé þar með orðið verðmætasta tæknifyrirtæki Bandaríkjanna, þ.e. ef litið er til markaðsverðmætis.
Ballmer ræddi við blaðamenn í Nýju-Delí á Indlandi í dag. „Leikurinn er langur. Það eru margir góðir keppinautar, en við erum einnig mjög góðir keppinautar,“ sagði hann. „Ég mun hagnast meira og það er ekkert tæknifyrirtæki á jörðinni sem er eins arðbært og við,“ sagði hann.
„Sjáum hvað gerist, en ég er enn ánægður með að í 94 skipti af hverjum 100 muni einhver kaupa Windows PC-tölvu.“